Merki Pírata

Lagasafn Pírata | [Fundargerð samþykktar]


Stefna um félagatal Pírata

Af hverju félagatal?

Píratar (kt. 461212-0690) halda úti félagatali um skráð félagsfólk sitt. Það er gert til þess að vita hversu margir eru skráðir í félagið á hverjum tíma, til að rukka (valkvæð) félagsgjöld, halda utan um í hvaða aðildarfélög viðkomandi er skráður í og til að geta haft samband við félaga okkar.

Auk þess geta þau sem skrá sig í félagið tekið þátt í umræðum og kosningum á x.piratar.is.

Einnig notum við tengiliðaupplýsingar í félagatalinu til að tilkynna aðalfundi og þá viðburði og annað sem okkur ber skylda til skv. landslögum og lögum félagsins.

Hvaða persónuupplýsingar eru í félagatalinu?

Við geymum persónuupplýsingar um þig sem þú gefur upp þegar þú skráir þig í félagið. Það er nafn, kennitala, netfang, heimilisfang, símanúmer og aðildarfélag sem þú ákveður að skrá þig í.

Nafn: Þú getur skráð þig með hvaða nafni sem er. Það mun samt uppfærast þegar við samkeyrum félagatalið við Þjóðskrá.

Kennitala: Við þurfum að fá kennitölu til að vita að þú ert þú. Fólk frá 16 ára aldri má skrá sig í félagið og þurfum við því kennitölu til að staðfesta aldur.

Netfang: Til þess að hafa samskipti við þig þurfum við netfangið þitt. Þú getur þó ákveðið að vera ekki á póstlista hjá okkur.

Heimilisfang: Í einhverjum tilvikum gætum við haft samband við þig með bréfapósti. Við höfum þó oftast samskipti við félaga okkar með rafrænum hætti.

Símanúmer: Við gætum hringt í þig til að upplýsa þig um starfsemi félagsins, til dæmis í tengslum við aðalfund og kosningabaráttu; til þess að upplýsa þig um sjálfboðaliðaverkefni, minna þig á kjördag o.sv.frv.*

Aðildarfélag: Það er misjafnt hvernig þátttöku í prófkjörum er háttað hjá okkur. Stundum er þátttaka í prófkjöri í tilteknu kjördæmi bundin við skráningu í aðildarfélag þess kjördæmis. Í þeim tilfellum þurfum við að takmarka kosningarétt í prófkjörinu út frá skráðu aðildarfélagi.

Skráning í félög og skoðanafrelsi eru þín réttindi sem eru vernduð af Stjórnarskrá Íslands og öðrum alþjóðasáttmálum. Af því leiðir að persónuupplýsingar í félagatali teljast til viðkvæmra persónuupplýsingar. Píratar gera sér grein fyrir þessu og leggja sig fram við að virða friðhelgi einkalífs og tryggja öryggi þessara upplýsinga.

*Þú ræður hvort símanúmerið þitt sé skráð í félagatalið. Við gætum nýtt heimild skv. 2.gr. laga 162/2006 um stjórnmálasamtök til að fletta upp símanúmerinu þínu í skrám sem eru opinberar. Við munum þó ekki vista símanúmerið þitt í félagatalinu nema með þínu leyfi.

Hverjir hafa aðgang að félagatalinu?

Aðgang að félagatali Pírata hafa framkvæmdastjóri félagsins, formaður framkvæmdaráðs, ritari framkvæmdaráðs og ritarar aðildarfélaga Pírata. Þau sem hafa aðgang að félagatalinu hverju sinni eru bundin trúnaði um þær upplýsingar sem eru þar geymdar og hafa skrifað undir trúnaðaryfirlýsingu þar af lútandi.

Framkvæmdastjóri, formaður og ritari framkvæmdaráðs hafa aðgengi að félagatalinu í heild. Ritarar aðildarfélaganna hafa einungis aðgengi að upplýsingum um félagsfólk þeirra aðildarfélaga sem þau eru í forsvari fyrir.

Auk þess hafa tækni- og kerfisstjórar aðgengi að félagatalinu til þess að geta sinnt viðhaldsvinnu.

Píratar hafa sett sér verklagsreglur um notkun félagatalsins og einungis má vinna upplýsingar úr félagatalinu á fyrir fram tilgreindan hátt. og eru allar aðgerðir skráðar í vinnsluskrá.

Hvernig meðhöndlum við félagatalið

Við tryggjum öryggi upplýsinga í félagatalinu með aðgangsstýringu og fræðslu til þeirra sem hafa aðgengi að því.

Við samkeyrum félagatalið reglulega við Þjóðskrá. Það er gert svo við getum passað upp á að upplýsingar í félagatalinu séu uppfærðar og réttar.

Við munum aldrei birta opinberlega upplýsingar úr félagatalinu.

Ég vil ekki vera í félagatalinu

Þær upplýsingar sem þú veitir okkur til að skrá þig í félagið byggja á því að þú gefur okkur þitt samþykki fyrir því að halda utan um þær. Viljir þú segja þig úr félaginu getur þú haft samband við okkur piratar@piratar.is. Þegar þú segir þig úr félaginu þá eyðum við upplýsingum um þig úr félagatalinu.

Endurskoðun

Þessi stefna gæti tekið breytingum í samræmi við breytingar á persónuverndarlögum eða reglugerðum sem og vegna breytinga á því hvernig félagið vinnur með persónuupplýsingar.

Framkvæmdaráð Pírata og framkvæmdastjóri bera sameiginlega ábyrgð á endurskoðun og uppfærslu þessarar stefnu.

Allar breytingar sem kunna að verða gerðar á stefnunni taka gildi eftir að uppfærð útgáfa hefur verið birt á heimasíðu Pírata (piratar.is).

Þessi persónuverndarstefna var uppfærð þann 8. apríl 2022.

Hafir þú spurningar eða athugasemdir sendu þá vinsamlegast tölvupóst á gdpr@piratar.is

Að öðru leyti vísast til Persónuverndarstefnu Pírata.


Þessi vefur keyrir á Jekyll og er hýstur á GitHub.