Lagasafn Pírata | [Fundargerð samþykktar]
Mannauðsstefna Pírata
Markmið mannauðsstefnu Pírata er að Píratar hafi yfir að ráða hæfu, vel menntuðu og áhugasömu starfsfólki sem sameiginlega vinnur að því að efla grasrót Pírata og vinna að stefnumálum Pírata. Mannauðsstefnan nær til alls starfsfólks Pírata, en tekur ekki til verktaka sem starfa tímabundið fyrir Pírata.
Framkvæmdaráð ber ábyrgð á mannauðsstefnunni og hefur til hliðsjónar 10. kafla laga Pírata um starfsmenn, en framkvæmdastjóra ber að kynna stefnuna öllu starfsfólki Pírata.
Ráðningar
- Auglýsa skal öll launuð störf innan Pírata.
- Útlista skal eins nákvæmlega og hægt er hvaða verkefni viðkomandi skuli inna af hendi.
- Gera skal skýrar hæfnikröfur til umsækjenda. Lögð er áhersla á að ráða til starfa hæfasta starfsfólk sem völ er á og er við ráðningu metin menntun, reynsla, færni og hæfni til mannlegra samskipta.
- Píratar mismuna ekki umsækjendum á grundvelli kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kyngervis, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.
- Gæta skal jafnræðis og hlutleysis við allar ráðningar hjá Pírötum.
Starfsfólk
- Jafnréttis skal ávallt gætt hjá Pírötum.
- Á meðan starfsmanneskja starfar fyrir Pírata skal hún ekki starfa fyrir aðra stjórnmálaflokka eða sinna trúnaðarstöðum innan þeirra.
- Ábyrgð, laun og staða ákvarðast aldrei af kynferði starfsfólks. Stuðla skal að jákvæðum og uppbyggjandi starfsanda.
- Undirstaða góðs starfsanda eru góð samskipti og öflugt streymi upplýsinga milli grasrótar, starfsfólks og kjörinna fulltrúa.
- Starfsfólk skal vera vel upplýst um verkefni sín og skyldur.
- Einelti eða kynferðisleg áreitni verður ekki liðin innan raða Pírata.
- Píratar eru fjölskylduvænn vinnustaður sem tekur mið af aðstæðum starfsfólks.
- Starfsfólk eru bundið þagnarskyldu um það sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skal fara samkvæmt lögum.
Gildistími og endurskoðun
- Framkvæmdaráð skal endurskoða mannauðsstefnuna svo oft sem þurfa þykir, en þó að lágmarki á tveggja ára fresti, og leita eftir umsögnum og ábendingum frá félagsfólki Pírata.
- Drög að nýrri mannauðsstefnu skulu fá formlegt ferli í kosningakerfi Pírata.
Þessi vefur keyrir á Jekyll og er hýstur á GitHub.