Merki Pírata

Lagasafn Pírata


Eftirfarandi eru málsmeðferðarreglur Úrskurðarnefndar Pírata. Reglurnar voru samþykktar á fundi nefndarinnar þann 19. júlí 2016.

Úrskurðarnefnd heitir því að fylgja reglum þessum við úrlausn þeirra mála er berast henni.

Málsaðilum er bent á að kynna sér reglurnar vel.

I. Starfssvið og störf Úrskurðarnefndar Pírata

1. Lögsaga Úrskurðarnefndar

1.1. Úrskurðarnefnd hefur heimild til þess að úrskurða um ágreining um framkvæmd, túlkun og brot á lögum landsfélags Pírata.

1.2. Um lögsögu nefndarinnar fer samkvæmt lögum landsfélags Pírata. Úrskurðarnefnd hefur lögsögu til þess að ákvarða hvort hún hafi úrskurðarvald í einstökum málum.

1.3. Komi upp deila milli aðila, er varða brot á öðrum lögum félagsins, til að mynda lögum aðildarfélaga, starfshópa eða nefnda á vegum Pírata, getur Úrskurðarnefnd að beiðni deiluaðila, tekið sér lögsögu í málinu, samþykki báðir aðilar máls að gangast undir lögsögu nefndarinnar. Gilda þá sömu reglur og um aðra úrskurði nefndarinnar.

2. Málsaðilar

2.1. Allir félagsmenn Pírata geta verið aðilar máls fyrir Úrskurðarnefnd.

2.2. Hópar sem njóta lögvarinnar stöðu samkvæmt lögum Pírata hafa einnig kærurétt til nefndarinnar. Meðal lögvarinna hópa eru: Framkvæmdaráð Pírata, aðildarfélög Pírata, trúnaðarráð, þingflokkur og önnur félag, nefndir og ráð á vegum Pírata, hvort sem er á landsvísu eða einstökum landshlutum.

3. Aðilar að Úrskurðarnefnd

3.1. Nefndarmenn Úrskurðarnefndar eru skipaðir samkvæmt lögum Pírata.

3.2. Í Úrskurðarnefnd sitja þrír aðalmenn og tveir varamenn.

3.3. Það er á ábyrgð aðalmanna að nefndin sé fullskipuð og hæf til málsmeðferðar.

3.4. Nefndin telst fullskipuð og starfshæf til meðferðar máls þegar þrír nefndarmenn eru hæfir til meðferðar þess.

3.5. Að jafnaði fara aðalmenn nefndarinnar með mál. Ef aðalmaður er vanhæfur eða forfallast af öðrum orsökum, kemur varamaður í hans stað.

3.6. Ef meirihluti nefndarinnar er vanhæfur til málsmeðferðar, ber aðalmönnum að skipa óháða aðila í nefndina, til meðferðar tiltekins máls.

3.7. Tryggja skal að óháðir aðilar séu með góða þekkingu á íslenskum lögum sem og lögum Pírata.

4. Trúnaðarskylda Úrskurðarnefndar

4.1. Nefndarmönnum ber að gæta fyllsta trúnaðar í störfum sínum.

4.2. Meðlimir Úrskurðarnefndar skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu áður en þeir taka sæti í nefndinni.

4.3. Varamönnum og skipuðum matsmönnum nefndarinnar ber jafnframt að undirrita trúnaðaryfirlýsingu þegar þeir taka sæti í nefndinni.

5. Hæfisreglur nefndarmanna Úrskurðarnefndar

5.1. Nefndarmaður er vanhæfur til meðferðar máls og skal víkja sæti í þeim tilvikum þar sem nefndarmaður er:

  1. Aðili máls.
  2. Hefur beina og verulega hagsmuni af niðurstöðu máls.
  3. Ef fyrir eru hendi önnur atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.

5.2. Nefndarmanni ber að tilkynna meðnefndarmönnum sínum telji hann sig vanhæfan.

5.3. Nefndarmaður getur krafist þess að annar nefndarmaður víki sætis vegna vanhæfis. Nefndin úrskurðar þá um hæfi nefndarmanns.

5.4. Nefndarmaður getur alltaf sagt sig frá máli telji hann sig vanhæfan.

6. Fundir Úrskurðarnefnda

6.1. Nefndin skal að jafnaði funda einu sinni í viku og tekur mál fyrir á þeim fundum.

6.2. Halda skal fundargerð um meðferð tiltekins máls og skal afhenda hana aðilum máls, að málsmeðferð lokinni. Aðrir en aðilar máls geta óskað eftir aðgang að fundargerð. Úrskurðarnefnd ber þó að neita slíkri beiðni innihaldi fundargerðin einkamálefni einstaklinga eða viðkvæmar trúnaðarupplýsingar.

6.3. Ákvarðanir eru teknar með meirihluta atkvæða nefndarmanna.

II. Málsmeðferð

7. Form og efni kæru

7.1. Kæra til nefndarinnar skal vera skýr og berast með sannanlegum hætti.

7.2. Í kæru til nefndarinnar skal koma fram; efni kærunnar, rökstuðningur, lagatilvísanir, nafn aðila máls og aðrar mikilvægar upplýsingar. Nálgast má eyðublað á heimasíðu Pírata, kjósi kærandi að nýta sér það.

7.3. Málsmeðferð Úrskurðarnefndar skal að jafnaði vera skrifleg.

7.4. Nefndin getur heimilað aðilum máls að ganga plankann (og flytja þar með mál sitt munnlega fyrir nefndinni) ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Aðilar máls verða að óska sérstaklega eftir því að ganga plankann og færa rök fyrir nauðsyn þess.

7.5. Úrskurðarnefnd getur ákveðið að nauðsynlegt sé að málsaðilar gangi plankann ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

8. Úrskurðahæfi og fyrirtaka mála

8.1. Þegar mál berst til Úrskurðarnefndar, metur nefndin hvort málið sé tækt til úrskurðar.

8.2. Ákvörðun nefndarinnar um úrskurðahæfi skal liggja fyrir innan við viku frá því að málið berst nefndinni.

8.3. Ef mál er ekki tækt til málsmeðferðar skal tilkynna kæranda um það ásamt rökstuðningi.

8.4. Ef mál er tekið til meðferðar skal tilkynna úrskurðarhæfi kærunnar til kæranda, ásamt upplýsingum um tilhögun málsmeðferðar.

8.5. Ef svo ber undir ber Úrskurðarnefnd að upplýsa málsaðila er kæran beinist gegn að mál er til meðferðar.

8.6. Ef formgallar eru á umsókn kæranda eða umsókn af öðrum sökum ótæk til málsmeðferðar skal nefndin upplýsa kæranda um það og veita honum hæfilegan frest til úrbóta.

9. Málsmeðferðarfrestur

9.1. Ákvarðanir skulu teknar í máli svo fljótt sem unnt er. Nefndinni ber þó að gæta þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin.

9.2. Aðilum máls ber að afhenda nefndinni gögn og aðrar upplýsingar er málið varðar innan tveggja vikna eftir að þeim berst tilkynning um fyrirtöku máls. Tilkynna skal nefndinni formlega óski aðili máls að skila ekki inn gögnum eða upplýsingum.

9.3. Eftir að skilafrestur málsaðila er liðinn og gögn málsins liggja fyrir tekur Úrskurðarnefnd málið til meðferðar.

9.4. Úrskurðarnefnd skal kveða upp úrskurð innan mánaðar frá því að öll gögn hafa borist nefndinni.

9.5. Úrskurðir nefndarinnar skulu liggja fyrir að hámarki tveimur mánuðum eftir að úrskurðarhæfi kæru liggur fyrir.

9.6. Ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, til dæmis ef mál er viðamikið eða afla þarf frekari gagna, má lengja málsmeðferðarfrest um allt að tvær vikur.

10. Flýtimeðferð mála

10.1. Málsaðilum er heimilt að óska eftir flýtimeðferð mála ef sérstaklega stendur á.

10.2. Úrskurðarnefnd úrskurðar hvort þörf sé á flýtimeðferð mála.

10.3. Hljóti mál flýtimeðferð ber Úrskurðarnefnd að kveða upp úrskurð eins fljótt og auðið er.

11. Sönnunarbyrði mála

11.1. Að jafnaði liggur sönnunarbyrði mála hjá málshefjanda.

11.2. Séu upplýsingar máls ekki aðgengilegar málshefjanda getur úrskurðarnefnd óskað eftir upplýsingum frá hlutaðeigandi félögum Pírata. Félögum ber að verða við ósk úrskurðarnefndar.

12. Talsmenn málsaðila

12.1. Aðila máls er heimilt að njóta aðstoðar talsmanns, kjósi hann það.

12.2. Talsmaður getur aðstoðað aðila máls við undirbúning máls og átt samskipti við úrskurðarnefnd.

12.3. Umboð talsmanns til aðstoðar aðila máls þarf að vera skýrt.

13. Nafnleynd málsaðila

13.1. Aðili sem ber fram mál getur óskað nafnleyndar. Nefndin metur það í hverju tilviki fyrir sig hvort þörf sé á því og lætur aðila vita af ákvörðun sinni áður en mál er tekið til meðferðar.

13.2. Gæta skal jafnræðis beggja málsaðila þegar ákvörðun um nafnleynd er tekin og hafa meðalhóf til hliðsjónar hverju sinni.

13.3. Kærur gegn einstaka félagsmönnum, njóta að jafnaði ekki nafnleyndar.

III. Heimildir nefndarinnar og réttaráhrif úrskurða

14. Rannsóknarheimildir Úrskurðarnefndar

14.1. Úrskurðarnefnd getur óskað eftir upplýsingum frá hlutaðeigandi félögum Pírata við úrlausn mála. Félögum ber að verða við ósk úrskurðarnefndar.

14.2. Nefndin getur leitað til sérfróðra aðila við úrlausn máls.

15. Heimildir Úrskurðarnefndar til bráðabirgðaráðstafana

15.1. Úrskurðarnefnd getur beitt bráðabirgðaráðstöfunum til þess að stöðva framkvæmd máls séu verulegir hagsmunir í húfi fyrir málsaðila eða félagið.

15.2. Gefur nefndin þá út sérstakan úrskurð þess efnis sem getur stöðvað framgang mála eða beint þeim tímabundið í ákveðin farveg til bráðabirgða.

16. Réttaráhrif úrskurða

16.1. Ákvörðun úrskurðarnefndar er bindandi samkvæmt lögum Pírata.

16.2. Úrskurðarnefnd beinir því til hlutaðeigandi aðila að sjá til þess að ákvörðun verði framfylgt.

17. Endurupptaka

17.1. Unnt er að sækja um endurupptöku mála ef ný og veigamikil gögn berast nefndinni eða miklar breytingar verða á aðstæðum.

17.2 Um endurupptöku mála gilda sömu reglur og um aðra úrskurði nefndarinnar.

18. Birting úrskurða

18.1. Úrskurðarnefnd ber að birta úrskurði sína svo fljótt sem auðið er.

18.2. Birta skal úrskurði nefndarinnar á heimasíðu Pírata.

Samþykkt á fundi nefndarinnar.

Reykjavík, 19. júlí 2016,
Helgi Bergmann
Olga Margrét Cilia
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir


Þessi vefur keyrir á Jekyll og er hýstur á GitHub.