Merki Pírata

Lagasafn Pírata | Félagi slitið þann 12. september 2020. [Fundargerð um slit] [Afskráning í fyrirtækjaskrá]


Lög Pírata á Vestfjörðum

1. Heiti félagsins

1.1. Nafn félagsins er Píratar á Vestfjörðum. Varnarþing þess er Héraðsdómur Vestfjarða.

2. Hlutverk félagsins

2.2. Félagið starfar sem aðildarfélag Pírata. Félagið mótar sér stefnu í opnu ferli og leitast við að framfylgja henni með þeim leiðum sem standa til boða.

2.3. Starfssvæði félagsins eru sveitarfélögin Árneshreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Kaldrananeshreppur, Reykhólahreppur, Strandabyggð, Súðavíkurhreppur, Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð. Verði einhver þessara sveitarfélaga sameinuð skal hið nýja sveitarfélag sjálfkrafa teljast til starfssvæðis félagsins.

2.4. Starfstímabil félagsins er almanaksárið.

3. Aðild að félaginu

3.5. Aðild að félaginu er opin öllum þeim sem uppfylla kröfur um skráningu í Pírata og eiga lögheimili innan starfssvæðis þess við skráningu í félagið. Stjórn félagsins er einnig heimilt að samþykkja aðild einstaklinga á grundvelli annarra tengsla við svæðið.

3.6. Framkvæmdaráð Pírata annast skráningu og staðfestingu félaga í samræmi við þær reglur sem almennt gilda um skráningu Pírata.

4. Stjórn félagsins

4.7. Firmaritun er í hönd meirihluta stjórnar félagsins. Öll ráðstöfun eigna skal fara fram á grundvelli skriflegrar heimildar frá stjórn.

4.8. Fundarsköp allra fastra nefnda og ráða skulu vera opinber. Fundir Pírata á Vestfjörðum skulu vera opnir áheyrnar.

4.9. Stjórn skal skipuð þremur félagsmönnum og skulu þeir titlaðir formaður, ritari, og gjaldkeri. Stjórn er kjörin í einu lagi á aðalfundi með hlutfallsbundinni forgangskosningu (e. STV). Stjórn skiptir með sér verkum. Stjórnarmenn tilnefna varamenn sína.

4.10. Stjórn ber ábyrgð á fjármálum félagsins og almennum rekstri þess. Stjórn er heimilt að fela framkvæmdaráði Pírata umsjón eða eftirlit með starfi sínu eða einstökum þáttum þess.

[25. Rekstrarafgangur félagsins skal sitja í sjóðum þess. Félagið lýtur reglum um fjármál stjórnmálasamtaka sem hluti af Pírötum. Bókhald þess skal birt opinberlega, sem hluti af bókhaldi Pírata.]

5. Kosningar og stefnumótun

5.11. Á vegum félagsins skal rekið kosningakerfi sem allir félagsmenn hafa aðgang að. Stjórn ber ábyrgð á rekstri kosningakerfis. Líta skal á kosningakerfið sem standandi félagsfund, og setja því fundarsköp.

5.12. Félagið getur ályktað í gegnum kosningakerfi sitt.

5.13. Píratar á Vestfjörðum marka stefnu sína sjálfir, með hliðsjón af stefnu Pírata. Stefna Pírata á Vestfjörðum er ákveðin með ályktunum. Tilgreint skal í ályktun um stefnu að hún sé stefnumótandi.

5.14. Stefnumótun Pírata á Vestfjörðum fylgir að öðru leyti reglum um stefnumótun Pírata.

5.15. Félaginu er heimilt með ályktun að stofna til kosningabandalags með öðrum stjórnmálaflokkum. Heimilt er að taka slíka ákvörðun í hverju sveitarfélagi fyrir sig.

[24. Píratar á Vestfjörðum skipa fulltrúa í kjördæmisráð Pírata í Norðvesturkjördæmi. Í sveitarfélögum þar sem virk félagsdeild starfar skal félagsdeild eða sveitarfélagsnefnd skipa fulltrúa. Í sveitarfélögum þar sem virkir Píratar eru, en engin félagsdeild, skal stjórn skipa fulltrúa. Heimilt er að víkja frá þessari skipan fulltrúa í kjördæmisráð með samhljóða ályktunum allra félagsdeilda og stjórnar.]

6. Kjörnir fulltrúar

6.16. Sveitarstjórnarmenn Pírata á Vestfjörðum teljast hverjir þeir sveitarstjórnarmenn og nefndarmenn í starfi sveitarfélaga sem kjörnir eru af lista Pírata, tilnefndir af Pírötum, eða með öðrum hætti kjósa að fylgja starfsreglum Pírata á Vestfjörðum.

6.17. Sveitarstjórnarmenn Pírata á Vestfjörðum skulu setja sér starfsreglur. Í þeim reglum skal kveðið á um aðferðir almennra flokksmanna til að hafa áhrif á starf sveitarstjórnarmanna.

6.18. Þrátt fyrir ákvæði 8. greinar skal sveitarstjórnarmönnum heimilt að halda lokaðan fund. Skal slíkt einungis heimilt ef um er að ræða mál sem bundið er trúnaði lögum samkvæmt. Tilkynna ber um ástæður fyrir lokun til félagsmanna.

7. Félagsdeildir

7.19. Heimilt er að stofna svæðisbundnar félagsdeildir innan Pírata á Vestfjörðum. Félagsdeild skal stofnuð með einfaldri atkvæðagreiðslu meðal þerra sem ættu kost á aðild að deildinni. Slík atkvæðagreiðsla skal fara fram óski minnst tveir félagsmenn þess skriflega við stjórn. Skrifi helmingur væntanlegra deildarmeðlima eða fleiri undir slíka beiðni skal óþarft að láta atkvæðagreiðslu fara fram.

Félagsdeild getur haft eingöngu eyðibyggð sem starfssvæði sitt. Til slíkra félagsdeilda geta talist landeigendur í eyðibyggð og aðrir sem verulegra hagsmuna hafa að gæta af ráðstöfunum sveitarfélagsins í eyðibyggð.

7.20. Félagsdeild hefur sjálfstæða stefnumótun. Stefna félagsdeildar í málefnum starfssvæðis síns skal bindandi fyrir sveitarstjórnarmenn Pírata.

7.21. Fyrir hverri félagsdeild skal fara kjörinn ábyrgðarmaður. Ábyrgðarmaður skal kjörinn innan félagsdeildar með Schulze-aðferð.

7.22. Nái félagsdeild yfir sveitarfélag í heild skal hún alfarið bera ábyrgð á þátttöku Pírata í sveitarstjórnarkosningum. Séu fleiri en ein félagsdeild í sveitarfélagi skal starfa sveitarfélagsnefnd. Í sveitarfélagsnefnd eiga sæti jafn margir fulltrúar frá hverri félagsdeild sem starfar innan sveitarfélagsins. Sveitarfélagsnefnd ber ábyrgð á þátttöku Pírata í sveitarstjórnarkosningum. Sveitarfélagsnefnd mótar einnig stefnu Pírata í málum sem vegna stjórnskipunar er óhjákvæmilega sameiginleg innan sveitarfélagsins.

Félagsdeild eyðibyggðar hefur ekki atkvæðarétt í málefnum byggðra svæða.

7.23. Að öðru leyti ákvarðar félagsdeild eigin lög. Félagsdeild er heimilt að halda aðskilda sjóði. Félagsdeild er heimilt að fela sérstöku félagi starfsemi sína. Slíkt félag skal teljast aðildarfélag Pírata á Vestfjörðum.

Félagsdeild skal lögð niður samþykki þrír fjórðu hlutar þátttakenda í kosningu meðal meðlima félagsdeildarinnar ályktun þess efnis.

7.24. Píratar á Vestfjörðum skipa fulltrúa í kjördæmisráð Pírata í Norðvesturkjördæmi. Í sveitarfélögum þar sem virk félagsdeild starfar skal félagsdeild eða sveitarfélagsnefnd skipa fulltrúa. Í sveitarfélögum þar sem virkir Píratar eru, en engin félagsdeild, skal stjórn skipa fulltrúa. Heimilt er að víkja frá þessari skipan fulltrúa í kjördæmisráð með samhljóða ályktunum allra félagsdeilda og stjórnar.

7.25. Rekstrarafgangur félagsins skal sitja í sjóðum þess. Félagið lýtur reglum um fjármál stjórnmálasamtaka sem hluti af Pírötum. Bókhald þess skal birt opinberlega, sem hluti af bókhaldi Pírata.

8. Aðalfundur

8.26. Aðalfundur skal haldinn hið síðasta 17. júní ár hvert. Til hans skal boðað með tveggja vikna fyrirvara hið minnsta. Í fundarboði skal tilgreint hvar stjórn félagsins fundi, en heimilt er að fjölga fundarstöðum síðar. Dagskrá aðalfundar skal ákveðin af stjórn, en á henni skulu vera hið minnsta ársskýrsla stjórnar, staðfesting ársreiknings og kjör nýrrar stjórnar.

8.27. Á aðalfundi skal heimilt að bera fram tillögur til breytinga á lögum félagsins. Skulu slíkar tillögur liggja fyrir á vettvangi félagsins tveimur vikum fyrir aðalfund hið minnsta. Komi tillögur að lagabreytingum fram eftir að fundarboð aðalfundar hefur verið sent út skal einnig senda tilkynningu um fyrirliggjandi lagabreytingar þegar frestur rennur út. Einnig skal heimilt að leggja tillögur til lagabreytinga fram í gegnum kosningakerfi félagsins. Skulu tillögur liggja fyrir hið minnsta jafn lengi áður en atkvæðagreiðsla hefst. Að öðru leyti skal kveðið á um meðferð slíkra tillagna í fundarsköpum kosningakerfis.

Tillögur til lagabreytingar þurfa að hljóta stuðning meira en ⅔ atkvæða í atkvæðagreiðslu.

8.28. Leitast skal við að tryggja að félagsmenn hafi aðgengi að aðalfundi án tillits til búsetu þeirra. Í því skyni skal heimilt að halda aðalfund samtímis á fleiri en einum stað innan starfssvæðisins. Tryggja skal að hljóði og mynd sé miðlað á milli fundarstaða með þeim hætti að allir fundarmenn sjái og heyri til ræðumanns hverju sinni. Ekki er heimilt að skipta fundi svo upp, að hann fari fram á fleiri en fimm stöðum. Á hverjum fundarstað skal vera fulltrúi fundarstjóra og fulltrúi fundarritara. Skulu þeir sinna skyldum fundarstjóra og fundarritara gagnvart fundarmönnum á hverjum stað og miðla upplýsingum sín á milli.

Forsenda fyrir skiptingu fundar skal vera sú að ekki sé unnt að gera ráð fyrir að félagsmenn geti gert sér dagsferð til næsta fundarstaðar.

8.29. Aðalfundi Pírata skal heimilt að boða aðalfund í Pírötum á Vestfjörðum hafi aðalfundargögnum ekki verið skilað á tilskyldum tíma.

9. Slit félagsins

9.30. Félagið telst ekki starfhæft ef félagar þess eru færri en þrír. Einnig telst félagið óstarfhæft ef enginn félaga hefur lögheimili á Vestfjörðum. Þó skal félagið teljast starfhæft burtséð frá lögheimili félaga ef íbúar á Vestfjörðum eru færri en 5000.

9.31. Félaginu skal slitið samþykki tveir þriðju hlutar félagsmanna ályktun þess efnis. Félaginu skal einnig slitið sé það óstarfhæft lengur en í hálft ár. Þá skal aðalfundi Pírata heimilt að slíta félaginu hafi aðalfundargögnum ekki verið skilað á tilskyldum tíma.

9.32. Við félagsslit skulu eignir félagsins renna til Pírata.


Þessi vefur keyrir á Jekyll og er hýstur á GitHub.