Merki Pírata

Lagasafn Pírata | Félagi slitið þann 16. apríl 2020. [Fundargerð um slit] [Félag óskráð í fyrirtækjaskrá]


Lög Pírata á Norðausturlandi

  1. Nafn félagsins er Píratar á Norðausturlandi. Varnarþing þess er Héraðsdómur Norðurlands eystra.

  2. Félagið starfar sem aðildarfélag Pírata.

  3. Starfssvæði félagsins eru sveitarfélögin Akureyri, Norðurþing, Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Hörgársveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Skútustaðahreppur, Tjörneshreppur, Þingeyjarsveit, Svalbarðshreppur og Langanesbyggð.

  4. Starfstímabil félagsins er almanaksárið.

  5. Aðild að félaginu er opin öllum þeim sem uppfylla kröfur um skráningu í Pírata og eiga lögheimili innan starfssvæðis þess við skráningu í félagið. Stjórn félagsins er einnig heimilt að samþykkja aðild einstaklinga á grundvelli annarra tengsla við svæðið.

  6. Framkvæmdaráð Pírata annast skráningu og staðfestingu félaga í samræmi við þær reglur sem almennt gilda um skráningu Pírata.

  7. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar félagsins. Öll ráðstöfun eigna skal fara fram á grundvelli skriflegrar heimildar frá stjórn.

  8. Stjórn skal skipuð fimm félagsmönnum og skulu þeir titlaðir formaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnendur. Stjórn er kjörin í einu lagi með hlutfallsbundinni forgangskosningu (e. STV). Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórnir félagsdeilda á starfssvæði PáNA skulu skipaðar hið minnsta þremur félagsmönnum. Sé því við komið hafa félagsdeildir heimild til þess að skipa fimm manna stjórn.

  9. Stjórnarmenn tilnefna varamenn sína.

  10. Stjórn ber ábyrgð á fjármálum félagsins og almennum rekstri þess. Stjórn er heimilt að fela framkvæmdaráði Pírata umsjón eða eftirlit með starfi sínu eða einstökum þáttum þess.

  11. Píratar á Norðausturlandi marka stefnu sína sjálfir, með hliðsjón af stefnu Pírata. Stefna Pírata á Norðausturlandi er ákveðin með ályktunum. Tilgreint skal í ályktun um stefnu að hún sé stefnumótandi. Stefnumótun Pírata á Norðausturlandi fylgir að öðru leyti reglum um stefnumótun Pírata.

  12. Félaginu er heimilt með ályktun að stofna til kosningabandalags á sveitarstjórnarstigi með öðrum stjórnmálaflokkum. Heimilt er að taka slíka ákvörðun í hverju sveitarfélagi fyrir sig.

  13. Sveitarstjórnarmenn Pírata á Norðausturlandi teljast hverjir þeir sveitarstjórnarmenn og nefndarmenn í starfi sveitarfélaga sem kjörnir eru af lista Pírata, tilnefndir af Pírötum, eða með öðrum hætti kjósa að fylgja starfsreglum Pírata á Norðausturlandi.

  14. Sveitarstjórnarmenn Pírata á Norðausturlandi skulu setja sér starfsreglur. Í þeim reglum skal kveðið á um aðferðir almennra flokksmanna til að hafa áhrif á starf sveitarstjórnarmanna.

  15. Stjórn PáNA er heimilt að stofna til kjördæmafélags í NA kjördæmi í samvinnu við önnur aðildarfélög kjördæmisins.

  16. Heimilt er að stofna svæðisbundnar félagsdeildir innan Pírata á Norðausturlandi.

  17. Félagsdeild skal stofnuð með einfaldri atkvæðagreiðslu meðal þeirra sem ættu kost á aðild að deildinni. Slík atkvæðagreiðsla skal fara fram óski minnst tveir félagsmenn þess skriflega við stjórn. Skrifi helmingur væntanlegra deildarmeðlima eða fleiri undir slíka beiðni skal óþarft að láta atkvæðagreiðslu fara fram.

  18. Félagsdeild getur haft eingöngu eyðibyggð sem starfssvæði sitt. Til slíkra félagsdeilda geta talist landeigendur í eyðibyggð og aðrir sem verulegra hagsmuna hafa að gæta af ráðstöfunum sveitarfélagsins í eyðibyggð.

  19. Félagsdeild hefur sjálfstæða stefnumótun.

  20. Að öðru leyti ákvarðar félagsdeild eigin lög. Félagsdeild er heimilt að halda aðskilda sjóði.

  21. Félagsdeild skal lögð niður samþykki þrír fjórðu hlutar þátttakenda í kosningu meðal meðlima félagsdeildarinnar ályktun þess efnis.

  22. Rekstrarafgangur félagsins skal sitja í sjóðum þess. Félagið lýtur reglum um fjármál stjórnmálasamtaka sem hluti af Pírötum. Bókhald þess skal birt opinberlega, sem hluti af bókhaldi Pírata.

  23. Aðalfundur skal haldinn hið síðasta 1. október ár hvert. Til hans skal boðað með tveggja vikna fyrirvara hið minnsta.

  24. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála.

  25. Dagskrá aðalfundar skal ákveðin af stjórn, en á henni skulu vera hið minnsta ársskýrsla stjórnar, staðfesting ársreiknings og kjör nýrrar stjórnar.

  26. Framkvæmdaráði Pírata skal heimilt að boða aðalfund í Pírötum á Norðausturlandi hafi aðalfundargögnum ekki verið skilað innan þess tíma sem skilgreindur er í lögum Pírata um aðildarfélög.

  27. Félagið telst ekki starfhæft ef félagar þess eru færri en þrír. Einnig telst félagið óstarfhæft ef enginn félaga hefur lögheimili á starfssvæði félagsins sbr. gr. 3.

  28. Félaginu skal slitið samþykki tveir þriðju hlutar félagsmanna ályktun þess efnis. Félaginu skal einnig slitið sé það óstarfhæft lengur en í hálft ár.

  29. Þá skal aðalfundi Pírata heimilt að slíta félaginu hafi aðalfundargögnum ekki verið skilað á tilskyldum tíma sbr. gr. 26.

  30. Við félagsslit skulu eignir félagsins renna til Pírata.


Þessi vefur keyrir á Jekyll og er hýstur á GitHub.