Merki Pírata

Lagasafn Pírata | Félagi slitið þann 16. apríl 2020. [Fundargerð um slit] [Afskráning í fyrirtækjaskrá]


Lög Pírata á Austurlandi

1. Heiti félagsins

1.1. Heiti félagsins er Píratar á Austurlandi. Varnarþing þess er Héraðsdómur Austurlands.

2. Hlutverk félagsins

2.1. Félagið starfar sem aðildarfélag Pírata.

2.2. Markmið félagsins er að stuðla að samfélagslegum og lýðræðislegum umbótum á landsvísu, sem og í þeim sveitarfélögum sem starfsemi félagsins nær til.

2.3. Markmiði þessu hyggst félagið ná með því að bjóða fram lista til almennra kosninga er fara fram á starfssvæðinu undir nafni Pírata og starfa eftir atvikum á Austurlandi og á öðrum þeim vettvangi sem býðst, s.s. í hverfisráðum, starfshópum, íbúafélögum o.þ.h.

3. Aðild að félaginu

3.1. Hver sem er 16 ára á árinu eða eldri og hefur lögheimili eða fasta búsetu á Austurlandi (samkvæmt skilgreiningu SSA) getur fengið fulla aðild að félaginu.

3.2. Aðili að félaginu gerist sjálfkrafa aðili að Pírötum á landsvísu.

4. Stjórn félagsins

4.1. Stjórn félagsins annast almenna stjórn og rekstur félagsins. Hún, ásamt félagsfundum skv. 7. kafla, fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

4.2. Stjórn skal skipuð fimm félagsmönnum og skulu þeir titlaðir Kapteinn, ritari, gjaldkeri og meðstjórnendur. Stjórn er kjörin í einu lagi með hlutfallsbundinni forgangskosningu (e. STV), auk allt að fimm varamanna til stjórnar. Stjórnin skiptir með sér verkum.

4.3. Kapteinn stjórnar eða meirihluti stjórnarmeðlima geta boðað til funda.

4.4. Missi stjórnarmeðlimur kjörgengi í stjórn félagsins á meðan kjörtímabilinu stendur skal hann víkja tímabundið úr henni þar til hann öðlast aftur kjörgengi og skal varamaður koma í hans stað.

4.5. Varamaðurinn skal öðlast þau réttindi sem aðalmaður fékk við sitt kjör.

4.6. Séu færri en þrír stjórnarmeðlimir með kjörgengi skal boða til aukaaðalfundar eins fljótt og mögulegt er og kjósa í stjórn að nýju.

4.7. Kjörgengur til stjórnar félagsins er hver sá aðili sem skráður er í félagið og gegnir ekki kjörnum embættum til sveitarstjórnar eða Alþingis.

5. Aðalfundur

5.1. Aðalfundur félagsins skal vera haldinn fyrir lok maímánaðar ár hvert.

5.2. Boða skal til aðalfundar með þriggja vikna fyrirvara og með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað.

5.3. Einfaldur meirihluti skráðra aðila félagsins sem viðstaddir eru og hafa verið skráðir í félagið að lágmarki 30 daga fyrir aðalfund ræður úrslitum mála nema um annað hlutfall sé kveðið í lögum þessum. Allir viðstaddir skulu hafa málfrelsi og tillögurétt.

5.4. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar (hafi tillögur borist)
  5. Kosning stjórnar
  6. Kosning í önnur embætti samkvæmt lögum þessum
  7. Önnur mál

5.5. Stjórn félagsins getur ákveðið að boða til aukaaðalfundar.

5.6. Á félagsfundi skv. 7. kafla er hægt að leggja fram tillögu um að boða til aukaaðalfundar. Sé hún samþykkt á félagsfundinum skal hún sett í kosningu í rafrænu kosningakerfi Pírata til samþykktar eða synjunar. Sé hún samþykkt í rafrænu kosningakerfi Pírata er stjórn félagsins rétt og skylt að boða aukaaðalfund eins fljótt og mögulegt er.

5.7. Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs.

5.8. Á aðalfundi skulu kosnir tveir skoðunarmenn reikninga.

6. Lög, stefnumál og atkvæðagreiðslur

6.1. Félagið telst starfshæft nema 18 mánuðir séu liðnir frá síðasta aðalfundi enda sitji enginn kjörinn fulltrúi í opinberu embætti fyrir hönd félagsins.

6.2. Lögum félagsins má breyta á aðalfundi með auknum meirihluta atkvæða aðila félagsins sem sitja aðalfund. Tillaga að lagabreytingu á aðalfundi skal eigi afgreidd nema hún sé skýr og lögð fram skriflega.

6.3. Lögum félagsins má einnig breyta með samþykki aukins meirihluta greiddra atkvæða í rafrænu kosningakerfi Pírata. Slík atkvæðagreiðsla skal standa í 7 sólarhringa. Sérstök boð skulu send út til félagsmanna um að lagabreytingatillaga sé til kosningar þegar hún hefst.

6.4. Atkvæðarétt innan rafræns kosningakerfis Pírata hafa þeir félagsmenn sem jafnframt hafa verið félagar í Pírötum í að minnsta kosti 30 daga samfellt. Stofnfélagar félagsins hafa hins vegar kosningarétt óháð því skilyrði.

6.5. Grunnstefna Pírata skal höfð að leiðarljósi í starfsemi félagsins og grunnstefnu þess. Stefna félagsins má aldrei ganga gegn grunnstefnu Pírata.

7. Félagsfundur

7.1. Boða má til funda sem kallast félagsfundur í lögum þessum. Þeir skulu tilkynntir öllum skráðum aðilum félagsins með 7 sólarhringa fyrirvara á opinberum vettvangi Pírata. Í tilkynningunni skal standa hvar og hvenær fundur skal haldinn. Stjórn er skylt að boða til félagsfundar samkvæmt skriflegri beiðni fimm eða fleiri félaga og taka fram á fundarboði dagskrárefni það sem þeir félagar vilja að rætt sé um.

7.2. Félagsfundi má eingöngu halda á starfssvæði félagsins nema brýn nauðsyn krefjist að félagsfundur fari fram utan þess. Þátttaka félagsmanna er heimil í gegn um fjarfundarbúnað.

7.3. Viðstaddir félagsmenn skulu eiga tillögufrelsi, málfrelsi og atkvæðarétt. Félagsfundur má taka ákvörðun um að tillaga einhvers utan fundarins sé afgreidd en þær skulu vera skriflegar og eintak afhent fundarritara til varðveislu. Þó skal víkja frá þessu skilyrði ef tillaga barst með fundarboði. Þátttakendur í gegn um fjarfundabúnað hafa sama rétt og tilgreind er í grein 7.2

7.4. Allar ákvarðanir félagsfundar skulu teknar með einföldum meirihluta en þó eigi færri en þrem atkvæðum. Óski 5% fundarmanna, og eigi færri en þrír, eftir því að tiltekin kosning skuli vera leynileg, skal verða við því. Annars skulu atkvæði vera greidd fyrir opnum tjöldum nema um annað sé sérstaklega kveðið í lögum þessum.

8. Ágreiningur

8.1. Ágreining um túlkun laga þessara og grunnstefnu Pírata má bera undir úrskurðarnefnd Pírata. Um starfshætti úrskurðarnefndar Pírata fer eftir hennar eigin reglum sem og lögum Pírata og grunnstefnu. Til hennar má einnig áfrýja ákvörðunum fundarstjóra og stjórnar félagsins er varðar formskilyrði.

8.2. Ágreiningi um formskilyrði atkvæðagreiðslu skal komið á framfæri innan þriggja sólarhringa frá því hún fór fram eða frá því niðurstaða hennar ætti að hafa verið tilkynnt kvartanda, hvort sem kemur síðar. Hafi kvartandi ekki verið á fundinum þar sem niðurstaðan varð ljós skal miða við frá og með þeim tíma sem tilkynningin ætti að hafa borist til hans, bréfleiðis eða rafrænt, hafi niðurstaðan verið tilkynnt með þeim hætti.

9. Innkoma og rekstraratriði

9.1. Félaginu er heimilt að safna og taka á móti styrkjum ásamt því að stunda sölu á vörum og þjónustu eftir því sem landslög leyfa.

9.2. Rekstrarafgangur/hagnaður af starfsemi félagsins í lok starfstímabils skal fluttur óskertur til þess næsta.

9.3. Stjórn félagsins skal, fyrir lok júnímánaðar hvert ár, skila Pírötum fundargerð aðalfundar, ársskýrslu og bókhaldsgögnum síðastliðins árs til framkvæmdaráðs Pírata.

9.4. Skipti félagið starfsemi sinni frekar skal framkvæmdaráði Pírata gerð grein fyrir þeirri skiptingu að því leyti sem hún hefur áhrif á félagaskráningu.

10. Slit félagsins

10.1. Á félagsfundi skv. 7. kafla má bera upp tillögu um slit félagsins. Hún skal eingöngu afgreidd hafi hún verið tilkynnt í fundarboði. Samþykki aukinn meirihluti viðstaddra fundarmanna tillöguna skal kosið um hana í rafrænu kosningakerfi Pírata í 7 sólarhringa þar sem þarf aukinn meirihluta greiddra atkvæða til að slitin skoðist samþykkt.

10.2. Á aðalfundi skal heimilt að bera upp tillögu um slit félagsins. Hún skal eingöngu afgreidd hafi hún verið tilkynnt í fundarboði. Samþykki aukinn meirihluti atkvæðabærra aðila tillöguna skoðast slitin samþykkt.

10.3. Félaginu skal slitið sé það ekki lengur starfhæft samkvæmt lögum þessum. Tilkynning um slitin skulu send til allra skráða aðila í félaginu ásamt Pírötum.

10.4. Við slit félagsins skulu eignir þess, ef þeim er til að dreifa, renna til Pírata.


Þessi vefur keyrir á Jekyll og er hýstur á GitHub.