Lagasafn Pírata | [Skráning í fyrirtækjaskrá]
1.1. Heiti félagsins er Píratar í Reykjanesbæ. Aðsetur þess og varnarþing er í Reykjanesbæ.
2.1. Félagið er aðildarfélag Pírata. Starfssvæði þess er Reykjanesbær.
2.2. Félagið setur sér stefnu í opnu ferli og vinnur að framgangi hennar með öllum þeim aðferðum sem því standa til boða. Félaginu er heimilt að stuðla að og taka þátt í framboði til sveitarstjórnarkosninga innan starfssvæðis síns og alþingiskosninga í Suðurkjördæmi í samstarfi við önnur aðildarfélög í kjördæminu.
3.1. Aðild að félaginu er opin öllum þeim sem uppfylla kröfur um skráningu í Pírata og eiga lögheimili innan starfssvæðis eða hefur fasta búsetu á Suðurnesjum við skráningu í félagið.
3.2. Félagi í félaginu er sjálfkrafa aðili að Pírötum.
3.3. Félagar geta stofnað deildir innan félagsins til að vinna að tilteknum málefnum eða málefnum tiltekins sveitarfélags. Í deild skulu vera minnst þrír meðlimir, þar af einn formaður og einn ritari. Halda skal fundargerðir á fundum deilda og senda til stjórnar félagsins.
4.1. Stjórn félagsins annast almenna stjórn og rekstur þess. Hún, ásamt félagsfundum skv. 7. kafla, fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.
4.2. Í stjórn félagsins sitja fimm manns. Formaður stjórnar eða meirihluti stjórnarmeðlima geta boðað til funda.
4.3. Stjórn félagsins skal kosin í vefkosningu sem fer fram fyrir aðalfund. Vefkosningin skal gefa niðurstöðu um fimm manna stjórn og uppröðun allt að fimm varmanna. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórn og varamenn má einnig kjósa á aðalfundi sé niðurstaða vefkosningar ekki til staðar.
4.4. Missi stjórnarmeðlimur kjörgengi í stjórn félagsins á meðan kjörtímabilinu stendur skal hann víkja tímabundið úr henni þar til hann öðlast aftur kjörgengi og skal varamaður koma í hans stað. Varamaðurinn skal öðlast þau réttindi sem aðalmaður fékk við sitt kjör.
4.5. Séu færri en þrír stjórnarmeðlimir með kjörgengi skal boða til aukaaðalfundar eins fljótt og mögulegt er og kjósa í stjórn að nýju. Séu aðalfundargestir ekki kjörgengir má kjósa þá í stjórn með fyrirvara um að þeir skrái sig í félagið á aðalfundinum og hefja formleg stjórnarstörf eftir mánuð.
4.6. Kjörgengur til stjórnar félagsins er hver sá aðili sem skráður er í félagið og gegnir ekki kjörnum embættum til sveitarstjórnar eða á Alþingi.
4.7. Formenn og ritarar deilda hafa áheyrnaraðild og tillögurétt á stjórnarfundum félagsins.
5.1. Aðalfundur félagsins skal vera haldinn fyrir lok maímánaðar ár hvert.
5.2. Boða skal til aðalfundar með þriggja vikna fyrirvara og með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Aðalfundur Pírata skal hafa rétt til þess að boða aðalfund í félaginu.
5.3. Einfaldur meirihluti skráðra aðila félagsins sem viðstaddir eru aðalfund ræður úrslitum mála nema um annað hlutfall sé kveðið í lögum þessum. Allir viðstaddir skulu hafa málfrelsi og tillögurétt.
5.4. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
5.5. Stjórn félagsins getur ákveðið að boða til aukaaðalfundar.
5.6. Á félagsfundi skv. 7. kafla er hægt að leggja fram tillögu um að boða til aukaaðalfundar. Sé hún samþykkt á félagsfundinum skal hún sett í kosningu í rafrænu kosningakerfi Pírata til samþykktar eða synjunar. Sé hún samþykkt í rafrænu kosningakerfi Pírata er stjórn félagsins rétt og skylt að boða aukaaðalfund eins fljótt og mögulegt er.
5.7. Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs.
5.8. Á aðalfundi skulu kosnir tveir skoðunarmenn reikninga.
6.1. Félagið telst starfhæft svo lengi sem ekki meira en 18 mánuðir hafa liðið frá því að síðasti aðalfundur þess var haldinn og að auki séu engir kjörnir fulltrúar starfandi í embættum af hálfu félagsins.
6.2. Lögum félagsins má breyta á aðalfundi með auknum meirihluta atkvæða aðila félagsins sem sitja aðalfund. Tillaga að lagabreytingu á aðalfundi skal eigi afgreidd nema hún sé skýr og lögð fram skriflega.
6.3. Lögum félagsins má einnig breyta með samþykki aukins meirihluta greiddra atkvæða í rafrænu kosningakerfi Pírata. Slík atkvæðagreiðsla skal standa í 7 sólarhringa. Sérstök boð skulu send út til félagsmanna um að lagabreytingatillaga sé til kosningar þegar hún hefst.
6.4. Atkvæðarétt innan rafræns kosningakerfis Pírata hafa þeir félagar sem jafnframt hafa verið félagar í Pírötum í að minnsta kosti 30 daga samfellt. Stofnfélagar hafa hins vegar kosningarétt óháð því skilyrði.
6.5. Stefnu má ákveða með einföldum meirihluta í gegnum rafræn kosningakerfi Pírata.
6.6. Stefna skal alltaf rökstudd og hafa tilvísun í fyrri ákvarðanir félagsins eða Pírata. Stefnur Pírata skulu einnig hafa gildi sem stefnur félagsins nema ákveðið sé sérstaklega að tilteknar stefnur eigi ekki við eða að þær skulu útfærðar á annan tiltekinn hátt.
6.7. Með samþykki 5% fundarmanna á almennum félagsfundi, en lágmark þriggja, skal vísa tillögu að stefnu til rafrænna kosninga.
6.8. Þegar mál ratar inn í rafrænt kosningakerfi Pírata skal vera settur 7 sólarhringa umræðutími og fer kosning fram um leið og honum lýkur. Kosning skal standa yfir í 7 sólarhringa.
6.9. Sé þörf á skjótri ákvarðanatöku má leggja til, með samþykki stjórnar, hraðmeðferð á tillögu, en hún stendur þá yfir í sólarhring. Slíka ákvörðun þarf að staðfesta með hefðbundnum kosningum sem fara af stað samtímis. Skulu sérstök boð vera send til félagsmanna um að slík tillaga sé til kosningar.
6.10. Grunnstefna Pírata skal höfð að leiðarljósi í starfsemi félagsins og grunnstefnu þess. Stefna félagsins má aldrei ganga gegn grunnstefnu Pírata.
7.1. Boða má til funda sem kallast félagsfundur í lögum þessum og varðar málefni Suðurnesja. Þeir skulu tilkynntir öllum aðilum félagsins með 7 sólarhringa fyrirvara á opinberum rafrænum vettvangi Pírata á Suðurnesjum. Í tilkynningunni skal standa hvar og hvenær fundur skal haldinn. Stjórn er skylt að boða til félagsfundar samkvæmt skriflegri beiðni fimm eða fleiri félaga og taka fram á fundarboði dagskrárefni það sem þeir félagar vilja að rætt sé um.
7.2. Félagsfundi má eingöngu halda á starfssvæði félagsins nema brýn nauðsyn krefjist að félagsfundur fari fram utan þess.
7.3. Viðstaddir fundarmenn skulu eiga tillögufrelsi, málfrelsi og atkvæðarétt. Félagsfundur má taka ákvörðun um að tillaga einhvers utan fundarins sé afgreidd en þær skulu vera skriflegar og eintak afhent fundarritara til varðveislu. Þó skal víkja frá þessu skilyrði ef tillaga barst með fundarboði.
7.4. Allar ákvarðanir félagsfundar skulu teknar með einföldum meirihluta fundarmanna en þó eigi færri en þrem atkvæðum. Óski 5% fundarmanna, og eigi færri en þrír, eftir því að tiltekin kosning skuli vera leynileg, skal verða við því. Annars skulu atkvæði vera greidd fyrir opnum tjöldum nema um annað sé sérstaklega kveðið í lögum þessum.
8.1. Löglegur félagsfundur samkvæmt 7. kafla eða aðalfundur má ákveða að félagið bjóði fram lista til sveitarstjórnarkosninga og þingkosninga á starfssvæðinu.
8.2. Sé tekin ákvörðun um að félagið bjóði sig fram í tilteknum kosningum skal tilkynna ákvörðun félagsfundar samkvæmt grein 8.1 og auglýsa eftir framboðum. Allir félagar sem kjörgengir eru við kosningarnar skulu eiga rétt á að bjóða sig fram á lista. Rétt er og skylt að takmarka þann rétt ef landslög kveða á um að frambjóðendur þurfi að uppfylla tiltekin hæfnisskilyrði til að vera kjörgengir, hvort sem um sé að ræða lög þessi eða landslög.
8.3. Atkvæðagreiðslur um framboðslista skulu fara fram í rafrænu kosningakerfi Pírata sem standa skulu yfir í að minnsta kosti 7 sólarhringa en þó aldrei lengur en 10 sólarhringa. Með atkvæðarétt skal fara eftir grein 6.4 og skal þeim félögum er atkvæðarétt hafa tilkynnt að slík framboðslistakosning sé í gangi. Við framkvæmd kosninganna skal að öðru leyti fara eftir lögum Pírata um framboðslistakosningar.
8.4. Á löglegum félagsfundi er heimilt að leggja fram tillögu þess efnis að kjósa skuli aftur um framboðslista samkvæmt grein 8.3. Sé sú tillaga samþykkt á þeim félagsfundi skal hún borin undir atkvæðagreiðslu í rafrænu kosningakerfi Pírata til samþykktar eða synjunar. Hljóti hún samþykki þar skal auglýst eftir framboðum samkvæmt grein 8.2 og framboðslistakosning endurtekin samkvæmt grein 8.3.
8.5. Á löglegum félagsfundi er heimilt að leggja fram tillögu um að draga framboðslista félagsins til baka. Sé sú tillaga samþykkt á þeim félagsfundi skal hún sett í atkvæðagreiðslu í rafrænu kosningakerfi Pírata til samþykktar eða synjunar. Sé hún samþykkt í rafrænu kosningakerfi Pírata skal framboðslisti félagsins dreginn til baka hafi hann verið lagður fram en ella skal honum ekki skilað inn. Það skal gjört án tafar en þó eigi fyrr en sólarhringur er liðinn frá því úrslitin voru opinberlega tilkynnt. Hafi ágreiningi um lögmæti ákvörðunarinnar verið tilkynntur stjórn félagsins með formlegum hætti innan sólarhrings frá því úrslitin voru tilkynnt skal bíða með þá framkvæmd þar til endanleg niðurstaða málsins liggur fyrir. Félagsfundur þar sem tillaga samkvæmt þessari grein er borin upp þarf að fara fram að minnsta kosti 21 sólarhring áður en auglýstur kjördagur hefst, fyrsti kjördagur ef þeir eru fleiri en einn. Hafi framboðslisti verið dreginn til baka samkvæmt þessari grein er þó heimilt að kjósa annan framboðslista samkvæmt lögum þessum.
8.6. Hafi ekki nógu margir frambjóðendur boðið sig fram á framboðslistann til að fylla þann lágmarksfjölda sem kveðið er á um í landslögum skal samt sem áður halda framboðslistakosninguna. Stjórn félagsins er þá heimilt að raða í neðstu sæti listans eftir að kosningin var haldin, upp að þeim lágmarksfjölda sæta sem landslög kveða á um. Notfæri hún sér þá heimild má hún eingöngu raða þeim sem hafa veitt henni skriflegt leyfi til þess ásamt því að uppfylla kjörskilyrði þau sem aðrir frambjóðendur á listann þurftu að uppfylla.
8.7. Þegar framboðslistakosningu lýkur skal stjórn félagsins skila framboðslista félagsins inn til þeirra yfirvalda sem taka við framboðslista fyrir kosningar áður en framboðsfresti lýkur. Skal stjórn félagsins, eftir hennar bestu getu, sjá til þess að framboðslistinn uppfylli öll þau skilyrði sem sett eru svo framboðið sé gilt. Sé framboðslistanum hafnað af yfirvöldum og félaginu gefið færi á að skila inn leiðréttum framboðslista eða að öðru leyti bæta úr annmörkum, skal hún hafa heimild til þess en ekki ganga lengra en nauðsyn krefur í því sambandi. Er kemur að röðun frambjóðenda skal hún einvörðungu hafa heimild til þess að fella út frambjóðendur af listanum vegna skorts á kjörgengi og færa neðri frambjóðendur í efri sæti sem útfellingum nemur. Hún skal eigi hafa heimild til þess að endurraða frambjóðendum með öðrum hætti.
8.8. Atkvæðagreiðslur samkvæmt þessum kafla skulu ætíð vera leynilegar. Fari þær fram á félagsfundi skulu þær vera skriflegar og að öðru leiti fara þær eftir tilhögun félagsfunda samkvæmt lögum þessum. Ákvarðanir samkvæmt þessum kafla má eingöngu taka þegar tilgreint er í fundarboði um að tiltekin tillaga liggi fyrir. Frá því að niðurstaða félagsfundar samkvæmt þessum kafla liggur fyrir skal tilkynna hana, þar sem þess er krafist, innan tveggja sólarhringa frá því fundi var slitið. Framboðslistakosningar sem félagsfundur ákveður á grundvelli þessa kafla skulu hefjast innan tveggja mánaða frá því að tilkynning barst.
8.9. Ekki má halda atkvæðagreiðslu um framboð til sömu kosninga oftar en einu sinni á sama félagsfundi ef öll formskilyrði atkvæðagreiðslunnar hafi verið uppfyllt. Sama gildir um tillögur um að kjósa aftur á framboðslista eða draga framboð til baka. Sé ágreiningur um lögmæti atkvæðagreiðslunnar tekur fundarstjóri ákvörðun um lögmæti hennar en niðurstöðunni má áfrýja samkvæmt 9. kafla. Sé atkvæðagreiðsla dæmd ólögmæt skal hún ógilduð sem og aðrar atkvæðagreiðslur sem niðurstaðan heimilaði.
8.10. Frambjóðendur til lista skulu vera skráðir félagar þegar framboð þeirra er lagt fram, ellegar telst framboð þeirra ógilt. Þeir þurfa, áður en framboðslistakosning hefst, að minnsta kosti að skila þeim lágmarksupplýsingum um sig sem þarf til að skila inn framboði í þeim kosningum sem framboðslistinn er fyrir. Séu þeir staðsettir á starfssvæðinu þurfa þeir einnig að skila inn annarri pappírsvinnu áður en framboðslistakosning hefst innan Pírata, eins og undirritaðri yfirlýsingu, sem kjörstjórn krefst á grundvelli landslaga, ellegar þurfa þeir að skila þeim eins fljótt og auðið er. Hafi frambjóðandi ekki skilað inn framangreindum upplýsingum tveim vikum áður en skila á framboðslista er stjórn félagsins heimilt að fella hann út af honum. Þá mega þeir skila inn kynningu á sjálfum sér sem koma skal á framfæri til allra atkvæðisbærra aðila í félaginu áður en framboðslistakosning hefst.
8.11. Frambjóðandi hefur rétt, allt fram að þeim tíma sem framboðslisti er lagður fram á grundvelli greinar 8.7, til þess að óska eftir að hann sjálfur verði felldur út af listanum. Þeir frambjóðendur sem eru neðar á framboðslistanum en sá frambjóðandi, ef einhverjir, skulu færðir upp um eitt sæti.
9.1. Ágreining um túlkun laga þessara og grunnstefnu Pírata má bera undir úrskurðarnefnd Pírata. Um starfshætti úrskurðarnefndar Pírata fer eftir hennar eigin reglum sem og lögum Pírata og grunnstefnu. Til hennar má einnig áfrýja ákvörðunum fundarstjóra og stjórnar félagsins er varðar formskilyrði.
9.2. Ágreiningi um formskilyrði atkvæðagreiðslu skal komið á framfæri innan þriggja sólarhringa frá því hún fór fram eða frá því niðurstaða hennar ætti að verið tilkynnt kvartanda, hvort sem kemur síðar. Hafi kvartandi ekki verið á fundinum þar sem niðurstaðan varð ljós skal miða við frá og með þeim tíma sem tilkynningin ætti að hafa borist til hans, bréfleiðis eða rafrænt, hafi niðurstaðan verið tilkynnt með þeim hætti.
9.3. Sé misræmi milli þessara laga og laga Pírata skulu lög Pírata gilda.
10.1. Félaginu er heimilt að safna og taka á móti styrkjum ásamt því að stunda sölu á vörum og þjónustu eftir því sem landslög leyfa.
10.2. Rekstrarafgangur/hagnaður af starfsemi félagsins í lok starfstímabils skal fluttur óskertur til þess næsta.
10.3. Stjórn félagsins skal, fyrir lok júnímánaðar hvert ár, skila Pírötum fundargerð aðalfundar, ársskýrslu og bókhaldsgögnum síðastliðins árs til framkvæmdaráðs Pírata.
10.4. Skipti félagið starfsemi sinni frekar skal framkvæmdaráði Pírata gerð grein fyrir þeirri skiptingu að því leyti sem hún hefur áhrif á félagaskráningu.
11.1. Á félagsfundi skv. 7. kafla má bera upp tillögu um slit félagsins. Hún skal eingöngu afgreidd hafi hún verið tilkynnt í fundarboði. Samþykki aukinn meirihluti viðstaddra fundarmanna tillöguna skal kosið um hana í rafrænu kosningakerfi Pírata í 7 sólarhringa þar sem þarf aukinn meirihluta greiddra atkvæða til að slitin skoðist samþykkt.
11.2. Á aðalfundi skal heimilt að bera upp tillögu um slit félagsins. Hún skal eingöngu afgreidd hafi hún verið tilkynnt í fundarboði. Samþykki aukinn meirihluti atkvæðabærra aðila tillöguna skoðast slitin samþykkt.
11.3. Aðalfundur Pírata skal hafa heimild til þess að slíta félaginu.
11.4. Félaginu skal slitið sé það ekki lengur starfhæft samkvæmt lögum þessum. Tilkynning um slitin skulu send til allra skráða aðila í félaginu ásamt Pírötum.
11.5. Við slit félagsins skulu eignir þess, ef þeim er að dreifa, renna til Pírata.