Merki Pírata

Lagasafn Pírata | [Óskráð í fyrirtækjaskrá]


Lög Ungra Píratar

1. Heiti félagsins

1.1. Heiti félagsins er Ungir Píratar (UP). Aðsetur þess og varnarþing er í Reykjavík.

1.2. Heiti félagsins á ensku er Young Pirates of Iceland (YPI).

2. Hlutverk félagsins

2.1. Tilgangur félagsins er eftirfarandi:

a) Að starfa sem aðildarfélag innan Pírata þegar kemur að málefnum ungs fólks.

b) Að starfa á vettvöngum ungliðahreyfinga stjórnmálaflokka og annarra félaga sem ungliðahreyfing Pírata á Íslandi.

c) Að halda sambandi og samvinnu við erlendar ungliðahreyfingar Pírata og eftir atvikum aðrar erlendar hreyfingar.

d) Að halda sambandi og samvinnu við ungliðahreyfingar annarra stjórnmálaflokka.

e) Að halda uppi virku félagsstarfi meðal félagsmanna sinna.

3. Aðild að félaginu

3.1. Full aðild að félaginu er opin öllum á aldrinum 15 til 35 ára.

3.2. Aðili að félaginu gerist sjálfkrafa aðili að Pírötum.

3.3. Skráning í félagið skal fara í gegnum skráningarkerfi Pírata.

3.4. Félagsfundur getur veitt undanþágu frá inngönguskilyrði í félagið með samþykki stjórnar.

4. Stjórn félagsins

4.1. Stjórn félagsins annast almenna stjórn og rekstur félagsins. Hún, ásamt félagsfundum skv. 7. kafla, fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

4.2. Í stjórn félagsins sitja fimm einstaklingar sem skipta með sér verkefnum, en aðalfundi er heimilt að skipa annan fjölda. Forseti stjórnar eða meirihluti stjórnarmeðlima geta boðað til funda.

4.3. Stjórn skal kjósa í eftirfarandi hlutverk úr hópi stjórnarmeðlima (sbr. gr. 4.6):

a) Forseti:

i) boðar stjórnarfundi

ii) stýrir að jafnaði stjórnarfundum, nema meirihluti stjórnar ákveði annað

iii) heldur prókúru ásamt gjaldkera

b) Varaforseti/Ritari:

i) er staðgengill forseta

ii) skráir að jafnaði fundargerðir og heldur utan um skjöl félagsins

4.4. Stjórn er heimilt, en ber enga skyldu til þess, að skipa hvaða félagsmeðlim sem er í eftirfarandi hlutverk. Stjórn er heimilt að skipa fleiri en einn í hvert hlutverk eða skipa einstakling sem sinnir öðrum hlutverkum (sbr. gr. 4.5 og 4.6):

a) Gjaldkeri:

i) Sér um fjármál félagsins og heimilar útgjöld

ii) Sér um fjárhagsáætlun

b) Alþjóðafulltrúi:

i) hefur samskipti fyrir hönd Ungra Pírata við ungmennahreyfingar erlendra Pírata, og eftir atvikum aðrar erlendar hreyfingar

ii) Fulltrúi Ungra Pírata á erlendum samkomum.

c) Fulltrúi til þingflokks:

i) mætir á þingflokksfundi samkvæmt fyrirkomulagi með þingflokki

d) Viðburðastjóri:

i) skipuleggur viðburði

ii) hefur heimild og getur veitt heimild til þess að semja við þjónustuveitendur og gera innkaup samkvæmt fyrirmælum stjórnar

e) Stjórn er heimilt að stofna til fleiri embætta en er ekki skyldug til þess.

4.5. Á aðalfundi Ungra Pírata skal skipa stjórn félagsins. Séu fleiri en fimm félagsmenn í framboði til stjórnar skal kosið á milli þeirra. Kosning skal vera leynileg. Kosning skal fara fram með STV-kosningu, nema aðalfundur ákveði annað. Þeir fimm frambjóðendur sem verða hlutskarpastir í þeirri kosningu skipa stjórn Ungra Pírata og næstu fimm eru varamenn í þeirri stjórn.

4.6. Gefi tveir meðlimir nýkjörinnar stjórnar kost á sér til formanns skal aðalfundur kjósa á milli þeirra með einfaldri meirihlutakosningu. Séu fleiri en tveir í framboði skal félagsfundur kjósa á milli þeirra með IRV-forgangskosningu (e. instantrun-off).

4.7. Stjórn félagsins skal, innan mánaðar frá aðalfundi hvert ár, skila Pírötum fundargerð aðalfundar, ársskýrslu og bókhaldsgögnum síðastliðins árs til framkvæmdaráðs Pírata.

5. Aðalfundur

5.1. Aðalfundur félagsins skal vera haldinn í ágúst eða september ár hvert.

5.2. Boða skal til aðalfundar með þriggja vikna fyrirvara og með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað og fundarboðið hafi verið öllum félagsmönnum aðgengilegt. Aðalfundur Pírata skal hafa rétt til þess að boða aðalfund í félaginu.

5.3. Einfaldur meirihluti skráðra aðila félagsins sem viðstaddir eru aðalfund ræður úrslitum mála nema um annað hlutfall sé kveðið í lögum þessum. Allir viðstaddir skulu hafa málfrelsi og tillögurétt.

5.4. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

i. Kosning fundarstjóra og fundarritara

ii. Skýrsla stjórnar lögð fram

iii. Reikningar lagðir fram til samþykktar

iv. Lagabreytingar

v. Kosning stjórnar

vi. Önnur mál

5.5. Stjórn félagsins getur ákveðið að boða til aukaaðalfundar. Um aukaaðalfund gilda ákvæði greina 5.2. og 5.3., en dagskrá hans getur brugðið út frá ákvæðum greinar 5.4.

5.6. Á félagsfundi skv. 7. kafla er hægt að leggja fram tillögu um að boða til aukaaðalfundar. Sé hún samþykkt á félagsfundinum skal hún sett í kosningu meðal félagsmanna Ungra Pírata í rafrænu kosningakerfi Pírata til samþykktar eða synjunar. Sé hún samþykkt í rafrænu kosningakerfi Pírata er stjórn félagsins skylt að boða aukaaðalfund eins fljótt og mögulegt er, þó aldrei með minna en viku fyrirvara.

5.7. Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs.

6. Lög, stefnumál og atkvæðagreiðslur

6.1. Félagið telst starfhæft svo lengi sem ekki meira en 18 mánuðir hafa liðið frá því að síðasti aðalfundur þess var haldinn.

6.2. Lögum félagsins má breyta á aðalfundi með auknum meirihluta atkvæða viðstaddra félagsmanna. Tillaga að lagabreytingu á aðalfundi skal eigi afgreidd nema hún sé skýr og lögð fram skriflega.

6.3. Lögum félagsins má einnig breyta með samþykki aukins meirihluta greiddra atkvæða félagsmanna Ungra Pírata í rafrænu kosningakerfi Pírata. Slík atkvæðagreiðsla skal standa í 7 sólarhringa. Sérstök boð skulu send út til félagsmanna um að lagabreytingatillaga sé til kosningar þegar hún hefst.

6.4. Atkvæðarétt innan rafræns kosningakerfis Pírata hafa þeir félagar í Ungum Pírötum sem jafnframt hafa verið félagar í Pírötum í að minnsta kosti 30 daga samfellt.

6.5. Stefnu má ákveða með einföldum meirihluta í gegnum rafrænt kosningakerfi Pírata, eftir að hún hefur verið lögð fyrir félagsfund Ungra Pírata og samþykkt þaðan inn í kosningakerfið, sbr. greinar 6.7. og 6.8.

6.6. Stefna Ungra Pírata skal alltaf rökstudd með tilvísun í grunnstefnu Pírata, fyrri stefnu Pírata og/eða fyrri stefnu Ungra Pírata. Stefnur Pírata skulu einnig hafa gildi sem stefna félagsins nema samþykkt hafi verið stefna Ungra Pírata í sama málaflokki, sem gildir þá ofar stefnu Pírata í þeim málaflokki.

6.7. Með samþykki að lágmarki þriðjungs fundarmanna á almennum félagsfundi, en lágmark þriggja, skal vísa tillögu að stefnu til rafrænnar kosningar.

6.8. Þegar mál ratar inn í rafrænt kosningakerfi Pírata skal vera settur 7 sólarhringa umræðutími og fer kosning fram um leið og honum lýkur. Kosning skal standa yfir í 7 sólarhringa.

6.9. Sé þörf á skjótri ákvarðanatöku má leggja til, með samþykki stjórnar, hraðmeðferð á tillögu, en hún stendur þá yfir í sólarhring. Slíka ákvörðun þarf að staðfesta með hefðbundnum kosningum, sbr. grein 6.8., sem fara af stað samtímis. Skulu sérstök boð vera send til félagsmanna um að slík tillaga sé til kosningar.

6.10. Grunnstefna Pírata skal höfð að leiðarljósi í starfsemi félagsins. Stefna félagsins má aldrei ganga gegn grunnstefnu Pírata.

7. Félagsfundur

7.1. Boða má til funda sem kallast félagsfundur í lögum þessum. Þeir skulu tilkynntir öllum skráðum aðilum félagsins í gegnum póstlista félagatalsins með 7 sólarhringa fyrirvara. Í tilkynningunni skal standa hvar og hvenær fundur skal haldinn. Stjórn er skylt að boða til félagsfundar samkvæmt skriflegri beiðni fimm eða fleiri félagsmanna og taka fram á fundarboði dagskrárefni það sem farið er fram á í beiðninni.

7.2. Félagsfundi á að jafnaði að halda á starfssvæði félagsins.

7.3. Viðstaddir félagsmenn skulu eiga tillögufrelsi, málfrelsi og atkvæðarétt. Aðrir viðstaddir fundarmenn skulu einnig hafa málfrelsi og áheyrnarrétt nema viðstaddir félagsmenn ákveði annað. Félagsfundur má taka ákvörðun um að tillaga einhvers utan fundarins sé afgreidd en þær skulu vera skriflegar og eintak afhent fundarritara til varðveislu. Þó skal víkja frá þessu skilyrði ef tillaga barst með fundarboði.

7.4. Allar ákvarðanir félagsfundar skulu teknar með einföldum meirihluta en þó eigi færri en þremur atkvæðum, nema annað sé tekið fram í lögum þessum. Óski 5% fundarmanna, og eigi færri en þrír, eftir því að tiltekin kosning skuli vera leynileg, skal verða við því. Annars skulu atkvæði vera greidd fyrir opnum tjöldum, nema um annað sé sérstaklega kveðið í lögum þessum.

8. Ágreiningur

8.1. Ágreining um túlkun laga þessara og grunnstefnu Pírata má bera undir úrskurðarnefnd Pírata. Starfshættir úrskurðarnefndar Pírata fara eftir lögum Pírata á Íslandi.

8.2. Ágreiningi um formskilyrði atkvæðagreiðslu skal komið á framfæri við úrskurðarnefnd Pírata innan þriggja sólarhringa frá því hún fór fram eða frá því niðurstaða hennar var tilkynnt kvartanda.

9. Fjármál

9.1. Gjaldkeri og formaður félagsins fara með fjárreiður þess í samráði við stjórn félagsins en stjórn hefur endanlegt ákvörðunarvald.

9.2. Gjaldkeri félagsins hefur heimild fyrir fjárútlátum að hámarki 10.000 krónum. Hærri fjárútlát þurfa samþykki meirihluta stjórnarmanna.

9.3. Gjaldkeri eða forseti skal halda utan um kvittanir af öllum fjárútlátum félagsins þar sem kemur fram sundurliðun einstakra útgjaldaliða. Sé kvittun ekki fáanleg skulu útskýringar á því færðar til bókar í fundargerð á stjórnarfundi. Skoðunarmönnum reikninga skal veittur aðgangur að kvittunum jafnóðum.

10. Félagsdeildir Ungra Pírata

10.1. Félagsdeildir er hægt að stofna í samráði við stjórn Ungra Pírata út um allt land.

10.2. Félagsdeildir skal stofna með formlegum stofnfundi sem skal vera vel auglýstur meðal félagsmanna Pírata og í nágrenni stofnfundarins.

10.3. Eftir stofnun nýrrar félagsdeildar skal hún staðfest á næsta aðalfundi Ungra Pírata til að taka endanlega formlegt gildi, þó hún geti verið virk fram að þeim degi.

10.4. Lög Ungra Pírata gilda einnig fyrir félagsdeildir.

10.5. Félagsdeildir skulu kjósa stjórn á stofnfundi og svo á aðalfundi félagsdeildar ár hvert.

11. Slit félagsins

11.1. Á félagsfundi skv. 7. kafla eða aðalfundi eða aukaaðalfundi skv. 5. kafla má bera upp tillögu um slit félagsins. Hún skal eingöngu afgreidd hafi hún verið tilkynnt í fundarboði. Samþykki ⅔ hlutar viðstaddra félagsmanna tillöguna skal kosið um hana í rafrænu kosningakerfi Pírata í 7 sólarhringa, þar sem ⅔ hlutagreiddra atkvæða félagsmanna Ungra Pírata þarf til að slitin skoðist samþykkt.

11.2. Við slit félagsins skulu eignir þess, ef þeim er að dreifa, renna til Pírata.

12. Ýmis ákvæði

12.1. Lög þessi öðlast þegar gildi.


Þessi vefur keyrir á Jekyll og er hýstur á GitHub.