Merki Pírata

Lagasafn Pírata | [Skráning í fyrirtækjaskrá]


Lög Pírata í Suðvesturkjördæmi

1. Heiti félagsins

1.1. Heiti félagsins er Píratar í Suðvesturkjördæmi skammstafað PíSUV. Varnarþing þess er Héraðsdómur Reykjaness.

2. Hlutverk félagsins

2.1. Félagið er aðildarfélag stjórnmálaflokksins Pírata. Starfssvæði félagsins afmarkast af Suðvesturkjördæmi, eins og það er skilgreint hverju sinni skv. lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.

2.2. Félagið setur sér stefnu í opnu lýðræðislegu ferli og vinnur að framgangi hennar og grunnstefnu Pírata.

2.3. Félagið ber ábyrgð á framboði undir nafni Pírata til Alþingiskosninga í Suðvesturkjördæmi

2.4. Félagið skal eftir fremsta megni aðstoða aðildarfélög og félagsdeildir innan kjördæmisins við þátttöku í sveitarstjórnarkosningum óski þau eftir því. Félagið skal einnig eftir fremsta megni aðstoða við stofnun aðildarfélaga innan Suðvesturkjördæmis og/eða aðstoða einstaklinga við að bjóða fram undir merkjum Pírata til sveitastjórnarkosninga, ef óþarfi er að stofna sérstakt aðildarfélag.

3. Aðild að félaginu

3.1. Aðild að félaginu eiga svæðisbundin aðildarfélög Pírata í Suðvesturkjördæmi, einnig getur stjórn samþykkt aðildarfélög sem ekki eru svæðisbundin.

3.2. Hver sem er 16 ára á árinu eða eldri og hefur lögheimili eða fasta búsetu á starfssvæði félagsins getur fengið fulla aðild að félaginu. Stjórn félagsins er einnig heimilt að samþykkja aðild einstaklinga á grundvelli annarra tengsla við svæðið.

3.3. Starfi ekki virkt aðildarfélag á starfssvæði, skal heimilt er að stofna svæðisbundnar félagsdeildir innan Pírata í Suðvesturkjördæmi.

3.3.1. Félagsdeild skal stofnuð með einfaldri atkvæðagreiðslu meðal þeirra sem ættu kost á aðild að deildinni. Slík atkvæðagreiðsla skal fara fram óski minnst tveir félagsmenn þess skriflega við stjórn. Skrifi helmingur væntanlegra deildarmeðlima eða fleiri undir slíka beiðni skal óþarft að láta atkvæðagreiðslu fara fram.

3.3.2. Félagsdeild hefur sjálfstæða stefnumótun.

3.3.3. Fyrir hverri félagsdeild skal fara kjörinn ábyrgðarmaður. Ábyrgðarmaður skal kjörinn innan félagsdeildar með Schulze-aðferð.

3.3.4. Starfssvæði félagsdeildar skal vera minnst eitt sveitarfélag, einungis skal ein félagsdeild starfa í hverju sveitarfélagi.

3.3.5. Að öðru leyti ákvarðar félagsdeild eigin lög. Félagsdeild er heimilt að halda aðskilda sjóði. Félagsdeild skal lögð niður samþykki þrír fjórðu hlutar þátttakenda í kosningu meðal meðlima félagsdeildarinnar ályktun þess efnis.

4. Stjórn félagsins

4.1. Stjórn félagsins annast almenna stjórnun og rekstur þess. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

4.2. Kjósa skal með Schulze-forgangskosningu á aðalfundi félagsins að lágmarki þrjá einstaklinga í aðalstjórn og að hámarki fimm. Í varastjórn er hægt að kjósa allt að þrjá einstaklinga. Stjórnin skiptir með sér verkum.

4.3. Aðilar í varastjórn hafa eingöngu atkvæðarétt í fjarveru aðalmanns. Varamenn taka sæti eftir röðun þeirra á lista við forföll aðalmanna.

5. Aðalfundur

5.1. Boða skal til aðalfundar með tveggja vikna fyrirvara með tölvupósti á félagatal og/eða með öðrum sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur sé rétt til hans boðað. Aðalfund skal halda einu sinni á almanaksári.

5.2. Meirihluti skráðra aðila félagsins sem viðstaddir eru hvort sem eru í sal eða í gegnum fjarfund ræður úrslitum mála, nema um annað hlutfall sé kveðið í lögum þessum. Öll þau sem eru viðstödd skulu hafa málfrelsi og tillögurétt.

5.3. Dagskrá aðalfundar skulu að minnsta kosti vera þessi atriði:

5.4. Félagsfundur eða stjórn félagsins getur ákveðið að boða til aukaaðalfundar, samanber 5.1.

5.5. Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs.

5.6. Á aðalfundi skal kosinn einn skoðunaraðili reikninga.

5.7. Aðalfundi Pírata er heimilt að boða aðalfund Pírata í Suðvesturkjördæmi.

6. Lög, stefnumál og atkvæðagreiðslur

6.1. Félagið telst starfhæft svo lengi sem ekki meira en 18 mánuðir hafa liðið frá því að síðasti aðalfundur þess var haldinn.

6.2. Lögum félagsins má breyta á aðalfundi með meirihluta atkvæða félagsfólks sem sitja fundinn hvort sem er í sal eða í gegnum fjarfund. Tillaga að lagabreytingu á aðalfundi kjördæmafélagsins skal eigi afgreidd nema hún sé skýr, lögð fram skriflega í það minnsta einni viku fyrir fundinn.

6.3. Lögum félagsins má einnig breyta með samþykki meirihluta greiddra atkvæða í rafrænni kosningu. Slík atkvæðagreiðsla skal standa í samræmi við lög Pírata um kosningu vegna lagabreytinga. Boða skal til atkvæðagreiðslunnar með sannarlegum hætti að undangengnum félagsfundi.

6.4. Atkvæðarétt innan rafræns kosningakerfis hafa þeir meðlimir aðildarfélaga með aðild að PíSUV sem jafnframt hafa verið félagar í Pírötum í að minnsta kosti 30 daga samfellt.

6.5. Stefnumál Pírata í Suðvesturkjördæmi skal ákveða með meirihluta í gegnum rafrænt kosningakerfi.

6.5. Hver tillaga að stefnumáli félagsins skal innihalda greinargerð með rökstuðningi, ásamt því að hafa beina stoð í áður samþykktri stefnu Pírata og/eða grunnstefnu Pírata.

6.6. Píratar í Suðvesturkjördæmi geta samþykkt að stefnumál gangi framar öðrum stefnum Pírata. Stefna félagsins má þó aldrei ganga gegn grunnstefnu Pírata.

6.7. Þegar stefnumál fara til afgreiðslu í rafrænt kosningakerfi félagsins skal vera settur 5 sólarhringa umræðutími og fer atkvæðagreiðsla fram um leið og honum lýkur. Atkvæðagreiðsla skal standa yfir í 5 sólarhringa.

6.8. Sé þörf á skjótri ákvarðanatöku um stefnur félagsins má leggja til, með samþykki meirihluta stjórnar, hraðkosningu á tillögu, stendur hún þá yfir í sólarhring. Slíka ákvörðun þarf að staðfesta með hefðbundinni rafrænni kosningu sem fer af stað samtímis. Skulu sérstök boð vera send til félagsmanna um að slík tillaga sé til kosningar. Sé niðurstaða kosningar á þá leið að fyrri ákvörðun sé felld, skal sú niðurstaða gilda, sé ákvörðunin afturkræf. Með tillögunni þarf að fylgja rökstuðningur fyrir hraðmeðferð.

7. Framboð til alþingiskosninga, kjördæmisráð, prófkjör og umboðsmenn

7.1. Allir félagar í Pírötum sem kjörgengir eru í Suðvesturkjördæmi við Alþingiskosningarnar eiga rétt á að bjóða sig fram í prófkjörinu.

7.2. Kjördæmisráð skal skipað á aðalfundi kjördæmafélagsins í samræmi við lög Pírata.

7.2.1. Náist ekki að skipa kjördæmisráð á aðalfundi skal stjórn finna kjörgenga aðila til setu í kjördæmisráði. Kjósi meirihlutar stjórnar um það getur kosning kjördæmisráðs farið í gegnum rafrænt kosningarkerfi Pírata.

7.2.2. Í kjördæmisráði skulu vera þrír einstaklingar sem starfa óháð stjórn. Aðilar í kjördæmisráði geta ekki átt samtímis sæti í stjórn kjördæmisfélagsins.

7.2.3. Aðilar í kjördæmisráði geta ekki boðið sig fram í prófkjöri.

7.3. Kjördæmisráð skal alfarið sjá um prófkjör, prófkjörsreglur, undirbúning prófkjörs og framvindu þeirra, skal leggja prófkjörsreglur og framkvæmd prófkjörs fram að lágmarki fjórum vikum fyrir áætlað upphaf prófkjörs. Frambjóðendur, stjórn félagsins og stjórnir aðildarfélaga/félagsdeilda skulu veita kjördæmisráði gögn og upplýsingar sé þess óskað eftir því sem persónuverndarlög heimila. Óski kjördæmisráð eftir því, þá getur það óskað eftir aðstoð frá framkvæmdaráði Pírata í samræmi við lög Pírata.

7.4. Atkvæðagreiðslur um frambjóðendur í prófkjöri, skulu fara fram í rafrænu kosningakerfi og skal atkvæðagreiðsla standa yfir í að minnsta kosti 7 sólarhringa.

7.5. Atkvæðisrétt í prófkjöri hafa félagar sem uppfylla grein 3.2 og hafa verið skráðir í Pírata í 30 daga. Kjördæmisráð getur ákveðið að útvíkka kosningarétt í prófkjöri til alls skráðs félagsfólks Pírata náist ekki fyrirframskilgreind lágmarks kosningaþátttaka.

7.6. Kjördæmisráð sendir tilkynningu til allra félaga sem hafa atkvæðisrétt við upphaf prófkjörs. Við framkvæmd prófkjörsins skal að öllu leyti fylgja landslögum og þeim prófkjörsreglum sem kjördæmisráð hefur sett áður en prófkjör var auglýst. Frambjóðendum skal tilkynna um hvort gögn úr prófkjöri verði birt áður en prófkjör hefst.

7.7. Frambjóðandi hefur rétt, allt fram að þeim tíma sem framboðslisti er lagður fram til kjörstjórnar að óska eftir því skriflega til kjördæmisráðs að vera felldur út af listanum. Þeir frambjóðendur sem eru neðar á framboðslistanum, ef einhverjir, skulu færðir upp eftir sem því nemur.

7.8. Kjördæmisráð skal tilnefna tvo umboðsmenn fyrir framboðslista. Að prófkjöri loknu bera umboðsmenn ábyrgð á að skila framboðsgögnum til kjörstjórnar.

7.9. Umboðsmenn skulu sjá til þess að framboðslistinn uppfylli öll þau skilyrði sem sett eru svo framboðið sé gilt í kjördæminu. Sé framboðslistanum hafnað af yfirvöldum og félaginu gefið færi á að skila inn leiðréttum framboðslista eða að öðru leyti bæta úr annmörkum, skal kjördæmisráð í samráði við umboðsmenn hafa heimild til slíks en ekki ganga lengra en nauðsyn krefur í því sambandi.

8. Rekstur og fjármál

8.1. Hagnaður af starfsemi félagsins í lok starfstímabils skal fluttur óskertur til þess næsta.

8.2. Samþykkja skal á aðalfundi félagsins fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár.

8.3. Birta skal fyrir aðalfund, ársreikning og ársskýrslu stjórnar. Fundargerð aðalfundar skal birt 2 vikum eftir aðalfund. Fjárhagsupplýsingar félagsins skulu vera aðgengilegar öllum.

9. Ágreiningur

9.1. Úrskurðarnefnd Pírata sker úr um ágreining á túlkun þessa laga.

10. Slit félagsins

10.1. Á aðalfundi má bera upp tillögu um slit félagsins. Hún skal eingöngu afgreidd hafi hún verið tilkynnt í fundarboði. Samþykki ⅔ viðstaddra fundarmanna tillöguna skal félaginu slitið. Einnig er hægt að leggja fram tillögu um slit félagsins á félagsfundi sem lögð verður fram í kosningakerfi Pírata að undangengnu samþykkir meirihluta félagsfólks á félagsfundi. Skal atkvæðagreiðsla standa í 7 sólarhringa og ræður einfaldur meirihluti úrslitum.

10.2. Félaginu skal slitið sé það ekki lengur starfhæft samkvæmt grein 6.1. í lögum þessum. Tilkynning um slitin skulu send til allra skráða aðila í félaginu.

10.3. Við slit félagsins skulu eignir þess, sé þeim til að dreifa, renna til stjórnmálahreyfingarinnar Píratar.


Þessi vefur keyrir á Jekyll og er hýstur á GitHub.