Merki Pírata

Lagasafn Pírata | [Skráning í fyrirtækjaskrá]


Lög Pírata í Suðurkjördæmi

1. Heiti félagsins

1.1. Heiti félagsins er Píratar í Suðurkjördæmi. Varnarþing þess er Héraðsdómur Suðurlands.

2. Hlutverk félagsins

2.1. Félagið er aðildarfélag stjórnmálaflokksins Pírata. Starfssvæði félagsins afmarkast af Suðurkjördæmi, eins og það er skilgreint skv. lögum um Alþingiskosningar.

2.2. Félagið setur sér stefnu í opnu lýðræðislegu ferli og vinnur að framgangi hennar og grunnstefnu Pírata.

2.3. Félagið ber ábyrgð á framboði undir nafni Pírata til Alþingiskosninga í Suðurkjördæmi.

2.4. Félagið skal eftir fremsta megni aðstoða aðildarfélög innan kjördæmisins við þátttöku í sveitarstjórarkosningum óski þau eftir því.

3. Aðild að félaginu

3.1. Aðkomu að félaginu eiga öll svæðisbundin aðildarfélög Pírata í Suðurkjördæmi.

3.2. Aðild að félaginu er opin öllum þeim sem eiga lögheimili eða hafa fasta búsetu eða kosningarétt í Suðurkjördæmi og eru 16 ára á árinu eða eldri.

4. Stjórn félagsins og kjördæmisráð

4.1. Stjórn félagsins annast almenna stjórnun og rekstur þess. Hún, ásamt félagsfundum skv. 7. kafla, fer með málefni félagsins á milli aðalfunda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

4.2. Stjórn félagsins er skipuð fulltrúum allra svæðisbundinna aðildarfélaga í kjördæminu, að lágmarki 5 manns og að lágmarki einn frá hverju aðildarfélagi. Ef sá fjöldi er ekki oddatala þá skal draga um hvaða aðildarfélag fær auka fulltrúa þannig að stjórn félagsins standi á oddatölu. Fyrir hvern fulltrúa aðildarfélags skal vera einn til vara, frá sama aðildarfélagi. Meirihluti stjórnar getur boðað til stjórnarfunda. Óski aðildarfélag innan kjördæmisins eftir því að eiga ekki fulltrúa í stjórninni skal það skila inn skriflegri yfirlýsingu þess efnis, undirritaðri af stjórn þess aðildarfélags, til aðalfundar.

4.3. Stjórn félagsins skal samþykkt á aðalfundi auk varamanna til stjórnar. Stjórn og varamenn má kjósa á aðalfundi sé niðurstaða vefkosningar ekki til staðar.

4.4. Kjörgengur til stjórnar félagsins er hver sá aðili sem skráður er í félagið og er orðinn lögráða.

4.5. Stjórnin skiptir með sér verkum.

4.6. Stjórnarmeðlimir og varamenn í félaginu missa kjörgengi og skulu víkja að fullu úr stjórn á meðan þeir taka þátt í prófkjöri.

4.7. Missi stjórnarmeðlimur kjörgengi í stjórn félagsins á meðan á kjörtímabilinu stendur, skal hann víkja úr henni þar til hann öðlast aftur kjörgengi og skal varamaður koma í hans stað. Varamaðurinn skal öðlast þau réttindi sem aðalmaður fékk við sitt kjör.

4.8. Á aðalfundi skal skipa kjördæmisráð Suðurkjördæmis í samræmi við lög Pírata. Meðlimir í kjördæmisráði geta ekki tekið þátt í prófkjöri og þurfa að víkja úr stjórn félagsins á meðan á prófkjöri stendur.

4.9. Séu færri en fimm stjórnarmeðlimir með kjörgengi skal boða til aukaaðalfundar eins fljótt og mögulegt er og kjósa í auð stjórnarsæti fram að næsta aðalfundi.

5. Aðalfundur

5.1. Boða skal til aðalfundar með þriggja vikna fyrirvara og með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur sé rétt til hans boðað. Aðalfund skal halda fyrir 17. júní hvers árs.

5.2. Meirihluti skráðra aðila félagsins sem viðstaddir eru ræður úrslitum mála, nema um annað hlutfall sé kveðið í lögum þessum. Allir viðstaddir skulu hafa málfrelsi og tillögurétt.

5.3. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

5.4. Félagsfundur eða stjórn félagsins getur ákveðið að boða til aukaaðalfundar, samanber 5.1.

5.6. Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs.

5.7. Á aðalfundi skal kosinn skoðunaraðili reikninga.

6. Lög, stefnumál og atkvæðagreiðslur

6.1. Félagið telst starfhæft svo lengi sem ekki meira en 18 mánuðir hafa liðið frá því að síðasti aðalfundur þess var haldinn.

6.2. Lögum félagsins má breyta á aðalfundi með meirihluta atkvæða félagsmanna sem sitja fundinn. Tillaga að lagabreytingu á aðalfundi skal eigi afgreidd nema hún sé skýr, lögð fram skriflega í það minnsta 3 vikum fyrir fundinn og hafi borist með fundarboði.

6.3. Lögum félagsins má einnig breyta með samþykki meirihluta greiddra atkvæða í rafrænni kosningu. Slík atkvæðagreiðsla skal standa í 7 sólarhringa. Boða skal til atkvæðagreiðslunnar með sannarlegum hætti að undangengnum félagsfundi.

6.4. Atkvæðarétt innan rafræns kosningakerfis hafa þeir meðlimir félagsins sem jafnframt hafa verið félagar í Pírötum í að minnsta kosti 30 daga samfellt.

6.5. Stefnumál Pírata í Suðurkjördæmi skal ákveða með meirihluta í gegnum rafrænt kosningakerfi.

6.6. Hver tillaga að stefnumáli félagsins skal innihalda greinargerð með rökstuðningi, ásamt því að hafa beina stoð í grunnstefnu Pírata.

6.7. Píratar í Suðurkjördæmi geta samþykkt að stefnumál gangi framar öðrum stefnum Pírata. Stefna félagsins má þó aldrei ganga gegn grunnstefnu Pírata.

6.8. Með samþykki 5% fundarmanna á almennum félagsfundi, en að lágmarki þriggja, skal vísa tillögu að stefnumáli til rafrænna kosninga.

6.9. Þegar stefnumál fara til afgreiðslu í rafrænt kosningakerfi félagsins skal vera settur 7 sólarhringa umræðutími og fer atkvæðagreiðsla fram um leið og honum lýkur. Atkvæðagreiðsla skal standa yfir í 7 sólarhringa.

6.10. Sé þörf á skjótri ákvarðanatöku um lög eða stefnur félagsins má leggja til, með samþykki stjórnar, hraðkosningu á tillögu, en hún stendur þá yfir í sólarhring. Slíka ákvörðun þarf að staðfesta með hefðbundinni rafrænni kosningu sem fara af stað samtímis. Skulu sérstök boð vera send til félagsmanna um að slík tillaga sé til kosningar. Sé niðurstaða kosningar á þá leið að fyrri ákvörðun sé felld, skal sú niðurstaða gilda, sé ákvörðunin afturkræf. Með tillögunni þarf að fylgja rökstuðningur fyrir hraðmeðferð.

7. Félagsfundir og aðrir fundir

7.1. Boða má til funda sem kallast félagsfundir í lögum þessum. Þeir skulu tilkynntir öllum skráðum aðilum félagsins með 7 sólarhringa fyrirvara á rafrænum vettvangi Pírata í Suðurkjördæmi. Í tilkynningunni skal standa hvar og hvenær fundur skal haldinn. Einnig skal koma fram tilefni fundarins.

7.2. Stjórn er skylt að boða til félagsfundar samkvæmt skriflegri beiðni fimm eða fleiri félaga og taka fram á fundarboði dagskrárefni það sem þeir félagar vilja að rætt sé um.

7.3. Félagsfundi skal almennt halda á starfssvæði félagsins. Fundir utan Suðurkjördæmis eru háðir samþykki stjórnar.

7.4. Fundargestir á félagsfundum skulu eiga tillögufrelsi, málfrelsi og atkvæðarétt. Félagsfundur má taka ákvörðun um að innsend tillaga, þótt sendandi sitji ekki fundinn, sé afgreidd en þær skulu vera skriflegar og eintak afhent fundarritara til varðveislu. Þó má víkja frá þessu skilyrði ef tillaga barst með fundarboði.

7.5. Allar ákvarðanir félagsfundar skulu teknar með meirihluta fundarmanna en þó eigi færri en þrem atkvæðum. Komi fram ósk þess efnis að tiltekin kosning skuli vera leynileg, skal verða við því. Annars skulu atkvæði vera greidd fyrir opnum tjöldum nema annað sé sérstaklega kveðið á í lögum þessum.

7.6. Félagsmönnum er frjálst að halda aðra fundi, málefnafundi og vinnufundi eftir áhuga og þörfum, en þá er ekki nauðsynlegt að auglýsa með 7 daga fyrirvara, enda slíkir fundir ekki vettvangur bindandi ákvarðana.

7.7. Stjórnarfundir skulu alla jafna vera opnir félagsmönnum og þeir auglýstir. Félagar hafa áheyrnaraðild og tillögurétt á stjórnarfundum félagsins.

8. Framboð til alþingiskosninga, kjördæmisráð, prófkjör og umboðsmenn

8.1. Löglegur félagsfundur samkvæmt 7. kafla eða aðalfundur má ákveða að félagið bjóði fram lista til þingkosninga á starfssvæðinu.

8.2. Sé tekin ákvörðun um að félagið bjóði sig fram í alþingiskosningum fyrir Suðurkjördæmi skal stjórn tilkynna ákvörðunina á vettvangi félagsins.

8.3. Allir félagar í Pírötum sem kjörgengir eru í Suðurkjördæmi við alþingiskosningarnar eiga rétt á að bjóða sig fram í prófkjörinu.

8.4. Kjördæmisráð skal alfarið sjá um prófkjör, prófkjörsreglur, undirbúning prófkjöra og framvindu þeirra, í það minnsta 4 vikum fyrir upphaf prófkjörs. Í kjördæmisráði skulu vera 3 einstaklingar sem starfa óháð stjórn. Frambjóðendum, stjórn félagsins og stjórnir aðildarfélaga skulu veita kjördæmisráði gögn og upplýsingar sé þess óskað.

8.5. Atkvæðagreiðslur um frambjóðendur í prófkjöri, skulu fara fram í rafrænu kosningakerfi og skal atkvæðagreiðsla standa yfir í að minnsta kosti 7 sólarhringa.

8.6. Atkvæðisrétt í prófkjöri hafa félagar sem uppfylla grein 3.2 og hafa verið skráðir í Pírata í 30 daga.

8.7. Kjördæmisráð sendir tilkynningu til allra félaga sem hafa atkvæðisrétt til að minna á að prófkjör sé í gangi. Við framkvæmd prófkjörsins skal að öllu leyti fylgja landslögum og þeim prófkjörsreglum sem kjördæmisráð hefur sett áður en prófkjör var auglýst.

8.8. Séu frambjóðendur í prófkjöri færri en þarf til að fylla þann lágmarksfjölda sem kveðið er á um í landslögum skal samt sem áður halda prófkjör. Kjördæmisráði er þá heimilt að raða í neðstu sæti listans eftir að úrslit prófkjörs liggja fyrir, til að uppfylla lágmarksfjölda og hámarksfjölda á framboðslista eins og landslög kveða á um. Sé sú heimild nýtt má eingöngu raða þeim sem hafa veitt skriflegt leyfi til þess ásamt því að uppfylla kjörgengi.

8.9. Skorti frambjóðanda kjörgengi skal einvörðungu vera heimilt að fella þann sama út af listanum og færa neðri frambjóðendur í efri sæti sem útfellingum nemur. Ekki er heimilt að endurraða frambjóðendum með öðrum hætti.

8.10. Frambjóðandi hefur rétt, allt fram að þeim tíma sem framboðslisti er lagður fram til kjörstjórnar að óska eftir því skriflega til kjördæmisráðs að hann sjálfur verði felldur út af listanum. Þeir frambjóðendur sem eru neðar á framboðslistanum, ef einhverjir, skulu færðir upp eftir sem því nemur.

8.11. Kjördæmisráð skal ákveða tvo umboðsmenn fyrir framboðslista. Að prófkjöri loknu bera umboðsmenn ábyrgð á að skila framboðsgögnum til kjörstjórnar.

8.12. Umboðsmenn skulu sjá til þess að framboðslistinn uppfylli öll þau skilyrði sem sett eru svo framboðið sé gilt í kjördæminu. Sé framboðslistanum hafnað af yfirvöldum og félaginu gefið færi á að skila inn leiðréttum framboðslista eða að öðru leyti bæta úr annmörkum, skal kjördæmisráð í samráði við umboðsmenn hafa heimild til slíks en ekki ganga lengra en nauðsyn krefur í því sambandi.

9. Rekstur og fjármál

9.1. Félagið skal hafa tekjur af félagsgjöldum og framlagi frá stjórnmálahreyfingunni Pírötum.

9.2. Félaginu er heimilt að safna og taka á móti styrkjum ásamt því að stunda sölu á vörum og þjónustu eftir því sem landslög leyfa.

9.3. Hagnaður af starfsemi félagsins í lok starfstímabils skal fluttur óskertur til þess næsta.

9.4. Birta skal fyrir aðalfund, ársreikning og ársskýrslu stjórnar. Fundargerð aðalfundar skal birt 2 vikum eftir aðalfund. Fjárhagsupplýsingar félagsins skulu aðgengilegar öllum.

10. Ágreiningur

10.1. Ágreining um túlkun laga þessara má bera undir úrskurðarnefnd Pírata. Til hennar má einnig áfrýja ákvörðunum fundarstjóra og stjórnar félagsins er varðar brot á lögum og reglum.

11. Slit félagsins

11.1. Á félagsfundi skv. 7. kafla má bera upp tillögu um slit félagsins. Hún skal eingöngu afgreidd hafi hún verið tilkynnt í fundarboði. Samþykki ⅔ viðstaddra fundarmanna tillöguna skal kosið um hana í rafrænu kosningakerfi á vettvangi félagsins í 7 sólarhringa þar sem þarf ⅔ greiddra atkvæða til að slitin skoðist samþykkt.

11.2. Félaginu skal slitið sé það ekki lengur starfhæft samkvæmt grein 6.1. í lögum þessum. Tilkynning um slitin skulu send til allra skráða aðila í félaginu.

11.3. Við slit félagsins skulu eignir þess, sé þeim til að dreifa, renna til stjórnmálahreyfingarinnar Píratar.


Þessi vefur keyrir á Jekyll og er hýstur á GitHub.